Innlent

Horfa til þess að leigja húsin sem þau selja í Grinda­vík

Kjartan Kjartansson skrifar
Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur.
Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur. Vísir/Arnar

Forseti bæjarstjórnar Grindavíkur segist vita til þess að íbúar bæjarins horfi til þess að geta jafnvel leigt húsin sín aftur þrátt fyrir að þeir selji þau ríkinu. Gengið var frá fyrstu kaupsamningunum um íbúðarhúsnæði í Grindavík í dag.

Grindvíkingum stendur til boða að selja íbúðarhúsnæði sitt til fasteignafélagsins Þórkötlu sem annast uppkaupin fyrir hönd ríkisins. Langflestir þeirra sem eiga þess kost hafa sótt um að selja húsnæði sitt.

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, fagnar því að uppkaupin séu hafin þar sem það eyði óvissu í lífi bæjarbúa. 

Þá sé jákvætt að forsvarsmenn Þórkötlu hafi hlustað á Grindvíkinga um að þeir fái að umgangast eignir sínar.  Framkvæmdastjóri Þórkötlu segir að miðað sé við að íbúðir séu afhentar einum til þremur mánuðum eftir að gengið er frá kaupsamningum.

„Ég veit að íbúar eru að horfa til þess að þó að þeir hafi nýtt þessi uppkaup að geta jafnvel leigt húsin sín,“ sagði Ásrún Helga í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Grindvíkingar hafi sótt mikið í önnur bæjarfélög á Suðurnesjum við leit að húsnæði til að vera nálægt rótum sínum. Sjálf sagði Ásrún Helga að Grindavík væri nafli alheimsins fyrir sér að hún hafi ekki ákveðið hvað hún geri.

„Hugurinn stefnir til Grindavíkur,“ sagði hún og taldi að flestir Grindvíkingar væru sama sinnis.

„Við viljum einmitt að fólk setjist niður og vinni úr áfallinu. Þá fáum við bara sterkari einstaklinga til baka,“ sagði Ásrún Helga.


Tengdar fréttir

Fyrstu kaup Þór­kötlu í Grinda­vík gengin í gegn

Fasteignafélagið Þórkatla gekk í dag frá fyrstu kaupsamningunum um kaup íbúðarhúsnæðis í Grindavík. Viðkomandi fasteignareigendur munu fá greitt út 95 prósent af kaupverði eigna þeirra í næstu viku.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×