Innlent

Allir samningar í höfn til að koma upp neyslurými í Borgar­túni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hafrún Elísa teymisstjóri hjá Rauða krossinum segir málið mikið fagnaðarefni.
Hafrún Elísa teymisstjóri hjá Rauða krossinum segir málið mikið fagnaðarefni. Vísir/Arnar

Ekkert er því til fyrirstöðu að koma upp neyslurými í Borgartúni, eins og stefnt hefur verið að um nokkra hríð. Teymisstjóri skaðaminnkunar hjá Rauða krossinum segir aðstæður vímuefnanotenda hafa versnað síðustu mánuði eftir að eina neyslurými landsins var lokað. Þetta sé því mikið fagnaðarefni.

„Næstu skref eru að Terra einingar komi á staðinn og komi niður einingahúsunum og svo er boltinn hjá okkur að fara af stað með þjónustuna,“ segir Hafrún Elísa Sigurðardóttir teymisstjóri hjá Rauða krossinum í skaðaminnkun.

Terra einingar hafa styrkt verkefnið með því að gefa húsnæði til eins árs. Verkefnið byggir á góðri reynslu sem fékkst úr Ylju, neyslurými Rauða krossins sem starfrækt var í bíl frá 2022 til 2023. Það verkefni var aðeins til eins árs og hefur því ekkert neyslurými verið starfrækt síðasta árið.

„Við tökum eftir því að aðstæðurnar hjá þjónustuþegum okkar hafa versnað. Þau eru úti að nota vímuefni í óöruggum aðstæðum - á götunni, í bílakjöllurum og öðrum stöðum - þar sem heilsu þeirra er ógnað.“

Alvarlegum sýkingum og ofskömmtum hafi fjölgað á þessum tíma og segir Hafrún því nauðsynlegt að notendur geti neytt efna sinna undir eftirliti fagaðila.

Húsnæðið sem opnað verður í Borgartúni verður rúmir hundrað fermetrar, og því mun stærra en bíllinn sem áður var notaður.

„Þar var einn einstaklingur sem gat komið og notað rýmið. Við vonumst eftir því að í þessu rými getum við boðið upp á, í mesta lagi, átta manns að koma í einu,“ segir Hafrún. 

„Við fögnum þessu, þetta er mjög stór áfangi í skaðaminnkun á Íslandi og gríðarlega mikilvægt fyrir þjónustuþega Frú Ragnheiðar til dæmis og aðra. Þetta er mjög mikið og stórt fagnaðarefni.“


Tengdar fréttir

Rekstur neyslurýmis í Borgartúni samþykktur

Byggingarfulltrúi samþykkti í vikunni umsókn Rauða kross Íslands um að koma upp einingahúsum fyrir neyslurými á lóð við Borgartún 5 í Reykjavík. Umsóknin var samþykkt þann 9. janúar.

Koma upp neyslurými í einingahúsum

Rauði krossinn leggur nú lokahönd á umsókn til Reykjavíkurborgar um afnot af lóð í Reykjavík. Á lóðinni á að koma fyrir einingahúsum þar sem hægt verður að setja upp neyslurými. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×