Innlent

Frið­rik Þór fer fyrir dóm­nefnd á kvik­mynda­há­tíð í Moskvu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Friðrik Þór Friðriksson er einn ástsælasti leikstjóri Íslands og hefur hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna.
Friðrik Þór Friðriksson er einn ástsælasti leikstjóri Íslands og hefur hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna. Vísir/Vilhelm

Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndaleikstjóri og framleiðandi mun fara fyrir dómnefnd á Alþjóðlegu Kvikmyndahátíðinni í Moskvu. Vestræni kvikmyndaiðnaðurinn hefur ákveðið að sniðganga keppnina að mestu leyti vegna innrásar Rússlands inn í Úkraínu.

Hátíðin er árleg og fer fram vikuna 19. til 26 apríl næstkomandi. Hún var fyrst haldin árið 1935. Úkraínsk stjórnvöld hafa hvatt til sniðgöngu á hátíðinni ásamt öðrum rússneksum menningarviðburðum og alþjóðleg samtök kvikmyndaframleiðanda, FIAPF, slitið öllu samstarfi við hana.

„Hann er stofnandi stærsta framleiðslufyrirtækis Íslands, Íslensku kvikmyndasamsteypunnar, sem hefur lengi starfað með Zentropa fyrirtæki Lars von Trier og American Zoetrop fyrirtæki Francis Ford Coppola. Hann hefur einnig hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir kvikmynd sína Börn náttúrunnar,“, segir um Friðrik í tilkynningu frá hátíðinni.

Umdeildur formaður styður innrásina

Nikita Mikhailov er formaður hátíðarinnar og er einn ástsælasti leikari og leikstjóri Rússa. Hann hefur verið opinskár með stuðning sinn við Vladímír Pútín forseta Rússlands í gegnum árin og lýsti einnig yfir stuðningi við innrásina árið 2022. Hann hefur áður tjáð sig opinberlega um „nasistana“ sem fara með völdin í Úkraínu og hefur sagt úkraínska tungu vera Rússahatur í sjálfri sér.

Árið 2007 skrifaði Nikita undir bréf þar sem kallað var eftir því að Pútín sæktist eftir sínu þriðja kjörtímabili sem forseti Rússlands. Sama ár bjó hann til kvikmynd í tilefni af 55 ára afmælis Pútíns sem sýnd var í rússneska ríkisútvarpinu.

Dómnefndin sem Friðrik Þór leiðir mun veita verðlaun fyrir bestu kvikmynd hátíðarinnar. Í henni sitja leikarar og leikstjórar frá Rússlandi, Tyrklandi og fleiri löndum.

Fréttastofa hafði samband við Friðrik við vinnslu fréttarinnar en hann vildi ekki tjá sig um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×