Innlent

Snjó­flóða­hætta til fjalla víða um land

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Því er beint til fólks að fara varlega og fylgjast með veðurspá.
Því er beint til fólks að fara varlega og fylgjast með veðurspá. vísir/sigurjón

Talsverð snjóflóðahætta er til fjalla víða um landið í dag. Mælst er til þess að fólk forðist það að ferðast um brattar brekkur til fjalla.

Snjó hefur kyngt niður víða um landið síðustu daga og er snjóflóðahættan ekki bundin við eitt landsvæði. Meiri hætta er þó talin á snjóflóðum á Austfjörðum. 

„Á Austfjörðum varð hann sérstaklega óstöðugur í prófum í gær, og þess vegna var spáin þar sett upp á rauðan. En í rauninni er þessi hætta til staðar á öllu norðanverðu landinu,“ segir Harpa Grímsdóttir ofanflóðasérfræðingur á Veðurstofunni. 

Hún segir snjóflóðahættuna ekki ógna byggð að svo stöddu. Þá eigi að draga úr veðri á Austurlandi í dag. 

„Það er spáð góðu veðri næstu daga og þá getur verið talsverð hætta á því að fólk á ferð til fjalla seti af stað snjóflóð ef það ferðast um brattar brekkur. Enda er þessi snjór ansi óstöðugur, sem er kominn.“

Tilmælin eru því skýr; fylgjast með veðurspá og korti vegagerðarinnar og að forðast það að ferðast um brattar brekkur til fjalla.

Nálgast má nánari upplýsingar og snjóflóðaspá fyrir valin svæði á vef Veðurstofunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×