Ríkisútvarpið greindi fyrst frá dómi Hæstaréttar.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, tilkynnti um friðlýsingu svæðisins árið 2019 og boðaði friðlýsingar fleiri svæða í kjölfarið. Jökulsá á Fjöllum varð þá fyrsta friðlýsta svæðið í verndarflokki rammaáætlunar sem Alþingi samþykkti 2013.
Landeigendur Brúar 1 og Brúar 2 í Múlaþingi áfrýjuðu ákvörðuninni en á svæðinu hafa verið ráðagerðir um virkjanagerð og hafa Arnardalsvirkjun og Helmingsvirkjun verið nefnd sem virkjanakostir. Báðir kostir hafa verið í verndarflokki samkvæmt rammaáætlun frá árinu 2013.
Í dómi Hæstaréttar segir að gengið hafi verið á lögvarða hagsmuni þeirra sem eiga vatnsréttindi á svæðinu og var friðlýsingin því dæmd ógild. Hins vegar féllst dómurinn ekki á kröfu landeigenda um að Guðmundir Ingi hafi verið vanhæfur sökum þess að hann var formaður Landverndar skömmu áður en ákvörðun var tekin um friðlýsingu.
Íslenska ríkinu er einnig gert að greiða áfrýjendum, Önnu Guðnýju Halldórsdóttur, Stefáni Halldórssyni og Þóreyju Kolbrúnu Halldórsdóttur, hverju fyrir sig samtals 600 þúsund krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.