Innlent

Sól­gler­augu vekja undrun á Suður­lands­braut

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sólgleraugun eru heldur betur í stærri kantinum og sitt sýnist hverjum.
Sólgleraugun eru heldur betur í stærri kantinum og sitt sýnist hverjum. Vísir

Stærðarinnar sólgleraugu hafa verið sett upp við skrifstofur Sýnar á Suðurlandsbraut og vekja undrun vegfarenda. Verkefnið er gjörningur af hálfu Vodafone og hluti af markaðsherferð þeirra Sjáðu Rautt.

Lilja Kristín Birgisdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptamála hjá Vodafone, segir herferðina hafa verið í smíðum í rúma tvo mánuði.

„Allir lögðust á eitt enda stórt og flókið verkefni að setja gleraugun upp. Veturinn hefur verið langur og nú styttist í sumarið. Með verkinu langaði okkur að fagna hlýnandi veðri og koma fólki á óvart í umferðinni,“ segir Lilja Kristín.

Flest starfsfólk Vodafone snýr aftur til vinnu eftir páskafrí á morgun og merkir Lilja Kristín tilhlökkun meðal starfsmanna. Hún viðurkennir þó að skiptar skoðanir séu á verkefninu og dæmi um að starfsfólki finnist uppsetning gleraugnanna fullmikið af því góða.

Gleraugun hafa þegar vakið athygli og dæmi um að fólk bæði dáist og hneykslist á skreytingunni á samfélagsmiðlum. Lilja Kristín tók meðfylgjandi myndband á Suðurlandsbraut í morgun þar sem sjá má fólk virða gleraugun fyrir sér. Hún segir ferðamenn sérstaklega hafa klórað sér í kollinum yfir uppátækinu.

Klippa: Risasólgleraugu vekja furðu

Lilja Kristín segir að gleraugun muni standa á Suðurlandsbraut 8 út apríl.

Vísir er í eigu Sýnar sem á Vodafone.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×