Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um Öskju en hún er ein mesta eldstöð landsins. Þegar slíkar hræringar greinast í henni eins og núna er eins gott að vera á varðbergi.

Askja sýndi það árið 1875, fyrir nærri 150 árum, hvað hún getur gert mikinn óskunda. Þá varð þar öflugt sprengigos með svo miklu öskufalli að fjöldi bæja á Austurlandi fór í eyði. Er það gos talið stærsti orsakavaldurinn fyrir því að þúsundir Íslendinga fluttu til Vesturheims.
En Askja á líka til mildari gos eins og árið 1961, þegar síðast gaus þar. Þá varð þar hefðbundið hraungos sem stóð yfir í 5-6 vikur og olli engum skaða.

Askja er megineldstöð og lengst inni í óbyggðum norðan Vatnajökuls. Og hún er sérlega vel vöktuð. Skjálftahrinan í gær varð í norðvesturhluta Öskju með stærsta skjálfta upp á þrjú og hálft stig.
Veðurstofan sendi svo frá sér í dag gröf sem sýna hreyfingar á landinu sem mælast þar á gps-stöð, hreyfingar sem vísindamenn telja stafa af vaxandi kvikuþrýstingi. Eitt grafið sýnir færslu til norðurs frá því haustið 2021. Hún var sérstaklega mikil í fyrrasumar en svo datt hún niður í haust. En núna er hún byrjuð aftur. Annað graf sýnir svo færslur á landi til austurs á þessu sama tímabili.

En svo er það grafið sem sýnir landrisið. Þarna hefur landið verið að rísa undanfarin tvö ár, landrisið var raunar svo mikið síðastliðið sumar að Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur vildi banna fólki að fara í Öskju. Það hægði svo á landrisinu síðastliðið haust en núna segir Veðurstofan að það sé byrjað aftur.
Og núna er stóra spurningin: Hvað þarf þessi þrýstingur að byggjast mikið upp áður en þarna brýst upp eldgos? Svo gæti þetta auðvitað hjaðnað niður aftur.
Veðurstofan segir að mælingar næstu daga og vikur á aflögun muni leiða það í ljós hvort hraði aflögunarinnar hafi aukist aftur. Áfram verði fylgst náið með þróun mælinga á svæðinu.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: