Innlent

Líkams­á­rásir, þvag­lát og ferða­menn í vanda

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögregla hafði í nógu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölmörgum og fjölbreyttum verkefnum í gærkvöldi og nótt og var meðal annars kölluð út vegna fjögurra til sex ferðamanna sem voru sagðir hjálparvana við Gróttuvita.

Þegar lögreglu bar að virtist málið hins vegar leyst.

Tvær tilkynningar bárust um líkamsárásir í miðborginni og eru þær til rannsóknar. Þá var aðstoðar lögreglu óskað vegna óvelkomins einstaklings í póstnúmerinu 108. Sá neitaði að gefa upp persónuupplýsingar og sló til lögreglu. Var hann handtekinn en látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Lögregla var einnig kölluð til vegna annars óvelkomins einstaklings, að þessu sinni að gistiheimili í miðborginni. Leystist það mál farsællega. Þá barst tilkynning um einstakling sem var sagður ganga berserksgang í póstnúmerinu 105 og var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Tilkynnt var um þjófnaði úr verslunum í póstnúmerunum 108, 201 og 221. Þá barst einnig tilkynning um innbrot í heimahús í 109. Lögregla sinnti einnig útkalli vegna tveggja tilkynninga um „samkvæmishávaða“ í heimahúsi í 110 og tilkynningar um hávaða frá bílaþvotti í sama póstnúmeri.

Þá barst einnig tilkynning um mann sem kastaði þvagi í garði og hafði í kjölfarið í hótunum með  hníf. Er það mál í rannsókn.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni grunaðir um akstur undir áhrifum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×