Innlent

Helga bætist lík­lega í hópinn á mið­viku­dag

Jakob Bjarnar skrifar
Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar hyggur á breytingar og hefur boðað blaðamenn á sinn fund á miðvikudag.
Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar hyggur á breytingar og hefur boðað blaðamenn á sinn fund á miðvikudag. Íris Dögg Einarsdóttir

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, býður fjölmiðla velkomna til heimilis síns klukkan 12 miðvikudaginn 27. mars.

Svo segir í tilkynningu sem Laila Sæunn Pétursdóttir hefur, fyrir hönd Helgu, sent til fjölmiðla. Helga hefur undanfarin rúm átta ár gegnt starfi forstjóra Persónuverndar en íhugar nú breytingar. Í tilkynningunni kemur fram að hún bjóði „til ávarps og stutts samtals um embætti forseta Íslands en hún hefur á undanförnum vikum fengið áskoranir til forsetaframboðs úr ýmsum áttum.“

Af þessu er ekki hægt að ráða annað en að Helga ætli að bætast í hóp þeirra sem ætla að bjóða sig fram í komandi forsetakosningum. Nú eru 42 sem eru skráðir á lista hjá island.is með það fyrir augum að þeir séu að safna undirskriftum. En fram hefur komið að einhver hluti þeirra sé þarna meira í gríni en alvöru. Helga bætist væntanlega í þann hóp fjótlega en hún hefur verið orðuð við framboð lengi.

Nú ríkir veruleg spenna um hvort Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra láti slag standa en sú ákvörðun verður ekki léttvæg fundin, það myndi setja ríkisstjórnarsamstarfið í uppnám. Þeir sem eru þegar komnir fram og mega heita raunverulegir kandídatar eru Halla Tómasdóttir forstjóra BTeam, Baldur Þórhallsson prófessor, Sigríður Hrund Pétursdóttir framkvæmdastjóri, Arnar Þór Jónsson lögmaður, Ástþór Magnússon og Ásdís Rán Gunnarsdóttir athafnakona.


Tengdar fréttir

Halla býður sig fram til for­seta

Halla Tómasdóttir stefnir að því að verða næsti forseti Íslands. Halla tilkynnti um framboð sitt til forseta á blaðamannafundi í Grósku í Vatnsmýri í Reykjavík í hádeginu í dag. Fjöldi stuðningsmanna Höllu hafði þar safnast saman.

Baldur býður sig fram

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur tilkynnt um framboð sitt til embættis forseta Íslands. Það gerði hann á opnum fundi í Bæjarbíói í Hafnarfirði rétt í þessu.

„Ég ætla að fórna mér í framboðsbaráttu fyrir þig“

Ásdís Rán Gunnarsdóttir, athafnakona og fyrirsæta, vill að hópur frambjóðenda í forsetakosningunum í sumar sé sem fjölbreyttastur. Því hyggst hún fórna sér í baráttuna, segist vera komin í óformlegt forsetaframboð og safnar nú undirskriftum til þess að geta tekið þátt í kosningunum.

Arnar Þór ætlar á Bessastaði

Arnar Þór Jónsson, hæstaréttarlögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi á heimili sínu í Garðabæ rétt í þessu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×