Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um afmæli Loftleiða en félagið var stofnað þann 10. mars árið 1944. Flugsafn Íslands og Sögufélag Loftleiða standa að sýningunni í austurálmu og bíósal Hótels Loftleiða. Þar var sýningunni fylgt úr hlaði síðdegis í gær með ræðum en hún verður opin milli klukkan 10 og 17 alla daga fram til 16. mars. Aðgangur er ókeypis.

Þar má sjá kvikmyndir og muni úr merkri sögu Loftleiða auk þess sem saga félagsins og frumkvöðla er rakin á veggspjöldum. Sýningin er styrkt af Safnasjóði og sett upp með stuðningi og í góðri samvinnu við Icelandair, Loftleiðir Icelandic og Berjaya Reykjavik Natura Hotel. Í vor verður sýningin svo sett upp á Flugsafninu á Akureyrarflugvelli.

Forstjórinn Alfreð Elíasson var óskoraður foringi Loftleiðamanna og Loftleiðabyggingin, sem núna hýsir einnig höfuðstöðvar Icelandair, er einn helsti minnisvarðinn um stórveldið sem þeir byggðu upp. Fyrir framan bygginguna hittum við tvö af börnum hans og spurðum hversvegna menn töluðu um Loftleiðaævintýrið:

„Loftleiðaævintýrið? Vegna þess að þetta var bara lítið íslenskt félag. Eða bara þrír ungir flugmenn sem störtuðu flugfélagi og byrjuðu,“ svaraði Geirþrúður Alfreðsdóttir. Tveimur árum síðar hafi þeir verið búnir að kaupa fjögurra hreyfla flugvél.
Grunnurinn að ævintýrinu var lagður á Miklavatni í Fljótum þar sem dóttir Dagfinns Stefánssonar flugstjóra sýndi okkur bækistöð síldarleitarflugs Loftleiða.

„Hér voru þeir frumkvöðlarnir Alfreð, Kristinn Olsen, pabbi, Smári Karlsson og fleiri. Og þeir flugu hérna daginn út og daginn inn í leit að síldinni. Þarna var verið að byggja upp heila starfsgrein í fluginu,“ sagði Inga Dagfinnsdóttir.

„Þeir keyptu fjögurra hreyfla flugvél tveimur árum eftir að fyrirtækið var stofnað 1944, sem er alveg stórmerkilegt,“ sagði Haukur Alfreðsson.
Þetta voru fjarkarnir en síðan komu sexurnar, Rolls Royce-vélarnar og loks átturnar og voru Loftleiðir um tíma með þriggja prósenta markaðshlutdeild í Norður-Atlantshafsflugi.

„Loftleiðaævintýrið er náttúrlega má segja; ja, við erum lítil þjóð en við erum að fara þarna inn á alþjóðlegan markað. Við erum að brjóta ísinn á mörgum sviðum,“ sagði Haukur.
Í nýlegri tíu blaðsíðna grein í flugtímaritinu Airliner World er Loftleiðum lýst sem fyrsta lággjaldaflugfélagi sögunnar. Og fraktflugfélagið Cargolux, sem þeir byggðu upp í Lúxemborg, er núna það stærsta í Evrópu.

„Ég man það að þegar ég labbaði fyrst út af myndinni Alfreðs saga og Loftleiða þá var ég eiginlega bara stórhissa á því hvað pabbi hafði gert mikið. Ég bara hafði aldrei áttað mig á því fyrr en ég labbaði út af myndinni. Því að í mínum huga hafði pabbi aldrei verið svona einhver stórforstjóri,“ sagði Geirþrúður.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Í tíu mínútna viðtali við Jóhannes Einarsson á Stöð 2 árið 2017 var fjallað um Loftleiðaævintýrið: