Innlent

Kanna þær upp­lýsingar sem Vinnumálastofnun býr yfir

Jón Þór Stefánsson skrifar
Aðgerðirnar beinast að fyrirtækjum Davíðs Viðarsonar.
Aðgerðirnar beinast að fyrirtækjum Davíðs Viðarsonar. Vísir/Vilhelm

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunnar, segir þátt Vinnumálastofnunnar í rannsókn lögreglunnar á fyrirtækinu Vy-þrifum og eiganda þess Davíð Viðarssyni fyrst og fremst varða þær upplýsingar sem Vinnumálastofnun býr yfir.

„Við erum fyrst og fremst að skoða þann þátt sem að okkur snýr. Hvaða fólk er það sem er með þetta atvinnuleyfi?“ segir Unnur í samtali við fréttastofu og útskýrir að rannsóknin sé fyrst og fremst á forræði lögreglunnar.

Lögreglan lagðist í umfangsmiklar aðgerðir vegna máls í dag. Grunur er um mansal, peningaþvætti og skipulagða glæpastarfsemi. Aðgerðirnar voru á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi.

Fjöldi stofnanna tekur þátt í rannsókninni, en í tilkynningu lögreglunnar voru samstarfsaðilar hennar í málinu útlitstaðir.

Aðgerðirnar eru unnar í samvinnu við lögregluliðin á Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra, embætti ríkislögreglustjóra, Tollgæsluna, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, ASÍ, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, barnaverndaryfirvöld í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, félagsþjónustuna í Kópavogi og Hafnarfirði, heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Bjarkarhlíð.

„Við gefum út atvinnuleyfi til ríkisborgara sem koma utan evrópska efnahagssvæðisins. Við höfum framkvæmd og eftirlit með þeim lögum,“ segir Unnur um þátt Vinnumálastofnunnar. 

„Og svo förum við með þennan eftirlitsþátt að það sé verið að greiða kjarasamningsbundin laun og svo framvegis. Það er svona okkar eftirlit, þannig við erum oft í samstarfi við lögreglu og skattinn með þetta.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×