Innlent

Pétur Jökull hand­tekinn og úr­skurðaður í gæslu­varð­hald

Árni Sæberg skrifar
Þessa síðu er ekki lengur að finna á vef Interpol.
Þessa síðu er ekki lengur að finna á vef Interpol. Interpol

Pétur Jökull Jónasson, sem lýst var eftir á vef Interpol þann 16. febrúar síðastliðinn, hefur verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hann er hvergi að finna á vef Interpol lengur.

Þetta segir í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. DV greindi frá málinu fyrr í dag. Í tilkynningu segir að Pétur Jökull hafi verið handtekinn við komuna til landsins í gær og færður samdægurs fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem hann var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. 

Það hafi verið gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Eftirlýsingin hjá Interpol hafi verið birt að beiðni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og tilkomin vegna tilraunar til innflutnings á tæplega 100 kílóum af kókaíni frá Brasilíu til Íslands. Rannsókn á nefndum innflutningi hafi verið unnin á vegum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunnar á Suðurnesjum og embætta ríkislögreglustjóra og héraðssaksóknara.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við Vísi í gær að lögreglunni hefðu borist upplýsingar um hvar Pétur Jökull gæti verið staddur í heiminum.

Lýst var eftir Pétri Jökli vegna gruns um að hann tengdist stóra kókaínmálinu svokallaða. Grímur sagði í gær ljóst að þegar lýst er eftir mönnum með þessum hætti þá séu þeir grunaðir um aðild að málum. Pétur Jökull hefði þó ekki fengið réttarstöðu sakbornings. Það gerist við hugsanlega handtöku eða skýrslutöku.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Lýst eftir Pétri Jökli á vefsíðu Interpol

Lýst er eftir íslenskum karlmanni á vefsíðu Interpol að beiðni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Beiðnin er tilkomin vegna tilraunar til innflutnings á tæplega 100 kílóum af kókaíni frá Brasilíu til Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×