Innlent

Hraðinn á fólks­fjölguninni valdi vaxtaverkjum

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Hraðinn á fjölguninni mætti vera hægari. Ég held að við getum öll verið sammála um það,“ segir Guðmundur Ingi
„Hraðinn á fjölguninni mætti vera hægari. Ég held að við getum öll verið sammála um það,“ segir Guðmundur Ingi Vísir/Vilhelm

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segist hafa verulegar áhyggjur af því að stéttaskipting og ójöfnuður festist í sessi í íslensku samfélagi þegar að komi að innflytjendum. Hann telur innflytjendum hafa fjölgað of hratt hér á landi síðustu ár

Hann ræddi innflytjendamál í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun, og sagði gögn benda til þess að innflytjendur dansi margir hverjir í kringum lágtekjumörkin og eigi í hættu á að festast þar.

„Það þýðir að innflytjendur og börn þeirra eru að fá færri tækifæri til þess að blómstra hérna á meðan það eru að halda uppi hagvexti og verðmætasköpun í samfélaginu.“

Til þess að bregðast við þessu segir Guðmundur mikilvægt að leggja áherslu á innflytjendamálin og vísaði hann til heildstæðrar stefnumótunnar í málaflokknum sem hefur verið í vinnslu í ráðuneytinu. Hann segir stinga í stúf að Íslendingar séu ekki með lagasetningu líkt og nágrannalöndin.

Aðspurður um hvort að fjölgun á fólki af erlendu bergi brotnu sem komi til Íslands hafi verið of hröð segir Guðmundur svo vera.

„Hraðinn á fjölguninni mætti vera hægari. Ég held að við getum öll verið sammála um það. Það sýna tölurnar bara: Árið 2012 voru innflytjendur átta prósent af landsmönnum og nú eru þeir tæp tuttugu. Það er bara það sem gögn OECD eru að sýna okkur að vöxturinn er einna hraðastur hér. Það þýðir bara á mannamáli að það verða vaxtaverkir. Við sjáum það í skólunum og á húsnæðismarkaði.“

Guðmundur ræddi einnig um vinnslu á umsóknum og segir hana hafa gengið allt of hægt.

„Fólk er búið að vera hérna allt of lengi. Það er ekki gott fyrir fólkið að þurfa að bíða svona lengi. Það getur ýtt undir svarta atvinnustarfsemi. Það getur ýtt undir að brotið sé á fólkinu á vinnumarkaði. Það er til rosalaga mikils að vinna að stytta þennan tíma sem að tekur að fara í gegnum umsóknir því það er mannúðarmál og á sama tíma sparar það okkur fjármagn.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×