Innlent

Ís­lendingar flykkjast í sólina á Tenerife

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Rúmlega tvö þúsund Íslendingar eru staddir á Tenerife í hverri viku.
Rúmlega tvö þúsund Íslendingar eru staddir á Tenerife í hverri viku. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Um tvö þúsund Íslendingar sleikja nú sólina á Tenerife í hverri viku en ferðir til eyjunnar hafa sjaldan eða aldrei verið eins vinsælar og nú. Loftslagið þykir mjög gott á eyjunni fyrir Íslendinga og þá er lítið sem ekkert um pöddur þar og yfirleitt mjög hreinlegt.

Þegar maður er á Tenerife og röltir þar um eða er að flatmaga á ströndinni má alls staðar heyra íslensku talaða því Íslendingar eru um allt á Tene, enda segir Svali Kaldalóns hjá Teneriferðum á um tvö þúsund Íslendingar og jafnvel mun fleiri séu á eyjunni í hverri viku yfir vetrarmánuðina.

Hvað segir þú, hvað er svona gott við Tenerife?

„Ég held að það sé nú bara hlýjan og rólega lífið, maður er aðeins slakari hérna heldur en heima, ekki eins mikið áreiti og svona,” segir Ása Hildur Eggertsdóttir, ferðamaður á Tenerife.

Engar pöddur og ekkert vesen?

„Ég segi ekki, engar pöddur, ég hef alveg séð smá en þetta er ekkert eins og á Íslandi á sumrin, engar kóngulær hérna, það eru bara nokkrir kakkalakkar,” segir Ása Hildur hlæjandi.

Ása Hildur Eggertsdóttir, ferðamaður á Tenerife.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Við erum að reyna að telja alla Íslendingana. Við erum komin upp í 50 til 60 núna á nokkrum dögum þannig að maður hittir eiginlega fleiri Íslendinga en Spánverja,” segir Guðmundur Reynir Gunnarsson, ferðamaður á Tenerife, alsæll með lífið á eyjunni með fjölskyldu sinni.

Guðmundur Reynir Gunnarsson, ferðamaður á Tenerife.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hvað er best við Tenerife að þínu mati?

„Ég held að það sé bara sólin og hitinn og að þurfa ekki að kappklæða barnið alla morgna í kuldagalla og ullarföt,” segir Hrefna Rún Guðbjörnsdóttir, ferðamaður á Tenerife.

Hrefna Rún Guðbjörnsdóttir, ferðamaður á Tenerife.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Hér kemur maður til að hvíla sig. Það eru engar einhvern veginn væntingar, maður vill fara í sól, hita slökun, engar pöddur, engar moskító, eða lítið af þeim allavega og bara dásamlegt. Ganga hér um göngustígana, sól nánast hvern einasta dag, það getur ekki klikkað,” segir Margrét Linda Ásgrímsdóttir, ferðamaður á Tenerife.

Margrét Linda Ásgrímsdóttir, ferðamaður á Tenerife.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×