Innlent

Lista­há­skólinn fellir niður skóla­gjöld

Árni Sæberg skrifar
Kristín Eysteinsdóttir er rektor Listaháskóla Íslands.
Kristín Eysteinsdóttir er rektor Listaháskóla Íslands. Saga Sig

Stjórnendur Listaháskóla Íslands hafa ákveðið að fella niður skólagjöld frá og með haustönn ársins 2024. Það er gert í kjölfar tilkynningar um að sjálfstætt starfandi háskólum yrði boðið að fá óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda. Skólagjöld við skólann eru nú á bilinu 368 þúsund krónur til 568 þúsund krónur fyrir hverja önn.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tilkynnti í morgun að hún hefði boðið skólastjórnendum sjálfstætt starfandi háskóla að skólarnir hljóti óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda.

Í tilkynningu frá Listaháskóla Íslands, LHÍ, segir að þetta sé mikið fagnaðarefni þar sem skólinn hafi lengi talað fyrir því að afnema skólagjöld og breytingarnar muni taka gildi frá og með hausti 2024. Þegar uppi er staðið muni nemendur skólans þá aðeins greiða skrásetningargjöld sambærileg þeim sem eru hjá opinberu háskólunum.

„Þetta eru stór tímamót í sögu skólans og mikilvægasta jafnréttismál hvað varðar aðgengi nemenda að háskólanámi í listum hér á landi. Við höfum lengi bent á það ójafnræði sem felst í því að nám í listum sé bundið skilyrðum um skólagjöld umfram nám í öðrum háskólagreinum. Í þessu felast jafnari tækifæri til aðgengis að listnámi óháð efnahag sem er mikið fagnaðarefni. Við væntum þess að ákvörðunin feli í sér enn fjölbreyttari hóp umsækjenda, og þar af leiðandi hóp nemenda, á komandi árum,“ er haft eftir Kristínu Eysteinsdóttur, rektor Listaháskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×