Veður

Gengur í hvass­viðri eða storm sunnan­til eftir há­degi

Atli Ísleifsson skrifar
Varasamar ferðaaðstæður geta skapast á sunnanverðu landinu í dimmum éljum og skafrenningi.
Varasamar ferðaaðstæður geta skapast á sunnanverðu landinu í dimmum éljum og skafrenningi. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir vestlægri átt og éljagangi þar sem mun ganga í hvassviðri eða storm sunnanlands eftir hádegi. Gular viðvaranir taka gildi eftir hádegi á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Suðurlandi og Suðausturlandi vegna hvassviðrisins. Líkur eru á samgöngutruflunum.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að varasamar ferðaaðstæður geri skapast á þeim slóðum í dimmum éljum og skafrenningi.

Vegagerðin hefur varað við að margir vegir séu nú á óvissustigi á milli 9:00 og 20:00 og gætu lokast með stuttum fyrirvara. Vegfarendur eru beðnir um að vera ekki á ferðinni nema að brýna nauðsyn beri við.

„Á Austurlandi verður aftur á móti lengst af þurrt. Frost 0 til 7 stig. Undir kvöld fer að lægja og draga úr éljunum.

Á morgun sækir mildara loft að landinu og það hlýnar í veðri. Áttin verður suðvestlæg, 8-15 m/s og dálitlar skúrir eða él, en yfirleitt þurrt um landið norðaustanvert. Hiti 0 til 6 stig síðdegis. Annað kvöld nálgast úrkomusvæði úr suðri og undir miðnætti má búast við rigningu eða slyddu víða um land.

Á föstudag er svo útlit fyrir suðvestan hvassviðri eða storm og það kólnar með dimmum éljum um landið sunnan- og vestanvert,“ segir í tilkynningunni.

Gulu viðvaranirnar taka gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Faxaflóa klukkan 12:30 og gilda fram á kvöld. Á Suðausturlandi tekur viðvörunin gildi klukkan 15:30 og er í gildi til klukkan 19.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Suðvestan 8-15 m/s og skúrir eða él, en þurrt að kalla um landið norðaustanvert. Hlýnandi, hiti 0 til 6 stig síðdegis. Hægari um kvöldið og allvíða rigning eða slydda undir miðnætti.

Á föstudag: Gengur í suðvestan 15-25 og kólnar með éljum, en styttir upp á Norðaustur- og Austurlandi. Frost 0 til 7 stig síðdegis.

Á laugardag: Snýst í norðan og norðvestan 5-15 m/s, en suðvestan 15-23 sunnantil fram eftir degi. Víða él og frost 0 til 9 stig.

Á sunnudag: Norðaustlæg eða breytileg átt og dálítil él, en yfirleitt þurrt vestanlands. Frost 2 til 15 stig, mildast syðst.

Á mánudag: Austlæg átt og snjókoma með köflum, en lengst af þurrt um landið norðanvert. Dregur úr frosti.

Á þriðjudag: Norðlæg eða breytileg átt og snjókoma eða él.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×