Innlent

Tuttugu nýjar í­búðir í byggingu á Laugar­vatni

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Róbert Aron Pálmason, smiður og íbúi á Laugarvatni, sem dásamar staðinn enda mikið byggt á Laugarvatni og margir að flytja þangað.
Róbert Aron Pálmason, smiður og íbúi á Laugarvatni, sem dásamar staðinn enda mikið byggt á Laugarvatni og margir að flytja þangað. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Heimamenn á Laugarvatni vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið því það er svo mikil uppbygging á staðnum og mikið af nýjum húsum í byggingum að sjaldan eða aldrei hefur annað eins sést.

Róbert Aron Pálmason, verktaki, smiður og íbúi á Laugarvatni er einn af þeim sem er að byggja nokkur hús á Laugarvatni. Hann er ánægður með uppbygginguna á staðnum enda segir hann Laugarvatn vera frábæran stað til að búa á en þorpið er hluti af Bláskógabyggð.

„Það eru hérna 20 íbúðir í byggingu núna, sem er bara óvenju gott á mælikvarða lítils þorps. Hérna eru í byggingu raðhúsaíbúðir og það eru lítil fjölbýli í næstu götu, sem góður verktaki er að byggja og svo eru held ég fimm íbúðarhús, sem að einstaklingar eru að byggja,” segir Róbert Aron.

En hvaða skýringu á Róbert Aron á þessar miklu uppbyggingu á staðnum?

„Hér er náttúrulega dásamlegt að búa og ég held að Covid hafi kennt okkur það svolítið að það þarf ekkert endilega að búa í Reykjavík, maður getur bara búið svolítið fyrir utan borgina. Til dæmis fólk, sem þarf að fara einu sinni til tvisvar í vinnuna í Reykjavík, getur vel setið fyrir framan tölvuna hér frekar en að bíða að komast þangað á rauðu ljósi í Reykjavík.”

Róbert Aron segir umhverfið á Laugarvatni vera einstaklega rólegt og gott og margt áhugavert í boði. Þá nefnir hann skólasamfélagið, sem sé frábært, eins og í menntaskólanum og þá sé íþróttalíf og félagsstörf frábær á staðnum.

Húsin sem Róbert Aron er meðal annars að byggja á Laugarvatni og eru að fara í sölu.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvað með fasteignaverð á Laugarvatni á nýju húsunum, hvernig er það?

„Það er bara skammarlega lágt mundi ég segja miðað við gæðin, sem eru því fólgin að búa hérna. Það er spottprís á íbúðunum hér en það verður bara að hafa það. Hér höfum við í rauninni allt til alls. Það er stutt á Selfoss, örstutt að skjótast í bæinn og allt bara dásamlegt,” segir Róbert Aron, alsæll með lífið á Laugarvatni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×