Innlent

„Við gefumst aldrei upp“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Mohammed Alhaw og Naji Asar hafa dvalið á Austurvelli í tæpan mánuð.
Mohammed Alhaw og Naji Asar hafa dvalið á Austurvelli í tæpan mánuð. Vísir/Einar

Tjald á vegum Palestínumanna sem bíða fjölskyldusameiningar sem hefur verið uppi fyrir framan Alþingishúsið í tæpan mánuð var tekið niður í dag. Mótmælendur segjast alls ekki vera að gefast upp og ætla að halda dvölinni áfram án tjaldsins.

Tjaldbúðirnar voru reistar milli jóla og nýárs á Austurvelli fyrir framan Alþingishúsið. Fyrst um sinn voru einungis lítil tjöld þar fyrir mótmælendur til þess að sofa í. Skömmu síðar var þetta stóra hvíta tjald reist en það hefur orðið að ákveðnum samkomustað fyrir mótmælendur og stuðningsmenn þeirra.

Krafan var sú að stjórnvöld myndu beita sér fyrir því að fylgja eftir fjölskyldusameiningum sem höfðu verið samþykktar. Nú hafa stjórnvöld hins vegar óskað eftir því að tjaldið verði fjarlægt. Tveir þeirra sem hafa dvalið á Austurvelli síðasta tæpa mánuðinn eru Naji og Mohammed.

„Við munum aldrei gefast upp. Við virðum þessar reglur Reykjavíkurborgar því borgin sýnir mér virðingu og veitir mér tækifæri til að tala um þessar kröfur. Nú eru 29 dagar liðnir. Ég er þakklátur fyrir tækifærið. Vonandi fæ ég tækifæri til að setja þetta tjald upp aftur,“ segir Mohammed.

Klippa: Mótmælendur á Austurvelli pakka saman

Þeir segjast ekki ætla að fara neitt og halda áfram að vera á Austurvelli án tjalds

„Við verðum hér án tjalds. En hjartahlýtt íslenskt fólk kemur hingað og veitir okkur jákvæða strauma og hlýju. Við gefumst aldrei upp og verðum áfram á götum úti. Við biðjum stjórnvöld um að koma fjölskyldum okkar frá Gasa, láta þeim í té húsnæði og öryggi og styðja palestínska borgara. Við þökkum öllum sem hafa stutt okkur og gefumst aldrei upp. Skilaboðin frá okkar fólki eru að við gefumst aldrei upp. Við berjumst fyrir réttlæti,“ segir Naji. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×