Lífið

Báðir tví­burarnir enduðu í elda­vélum

Jakob Bjarnar skrifar
Ingvi í Rafha til vinstri og Ágúst bróðir hans til hægri. Þeir eru báðir fjallhressir og eru að fara að halda upp á áttatíu ára afmæli sitt. Geri aðrir betur.
Ingvi í Rafha til vinstri og Ágúst bróðir hans til hægri. Þeir eru báðir fjallhressir og eru að fara að halda upp á áttatíu ára afmæli sitt. Geri aðrir betur. aðsend

29. janúar 2024 fagna tvíburarnir Ágúst Ingiþórs og Ingvi Ingiþórs Ingasynir áttatíu ára afmæli sínu en í sitthvoru landinu.

Ingvi, sem lengstum hefur verið kenndur við Rafha, segir langlífi bæði í föður- og móðurætt og hann sér fram á bjarta daga.

„Ég er mikið að ferðast og leika mér. Er bara að þvælast um heiminn. Spái mikið í stjórnmálin. Og heilsan er góð. Ég hef reyndar ekki stundað íþróttir mikið en í gamla daga var ég að losa gáma. Var þá að taka á honum stóra mínum og var kannski að lyfta 70 kílóa þvottavélum uppá þriðju hæð. Þetta var mitt World Class í þrjátíu ár,“ segir Ingvi.

Hann segir að eftir að hafa losað gáma hafi hann verið uppgefinn og reynt á alla sína vöðva.

„Ég var á launum við að taka mig í gegn. Ég segir ekki að það hafi verið skipulagt, en svona var þetta.“

Sérkennileg tilviljun

Tilviljun hagaði því svo að báðir tvíburarnir fóru að fást við eldavélar en í sitthvoru landinu.

„Já, það er þannig að við erum sjómannssynir úr Keflavík. Hann Gústi fór þá leið að vinna með pabba í sjómennskunni. Ég fór í tæknifræðina og endaði í Rafha. Hann endar hjá Electrolux.“

Ingvi segir það mega heita sérkennilega tilviljun að báðir lentu í hliðstæðu starfi. Gústi bróðir hans lauk Stýrimannaskólanum 1975 og gekk þá inn í útgerð föður síns. Saman sóttu þeir feðgar sjóinn á Erling KE 20 í nokkur ár.

„Upp úr 1976 flutti Ágúst til Noregs með tilvonandi eiginkonu sinni. Hann hóf nám í radiotæknifræði og lauk því með ágætum. Að námi loknu hóf Ágúst störf hjá Electrolux í Noregi sem fólst aðallega í stjórn vélmenna. Verksmiðjan var lögð niður upp úr 2006 vegna harðar samkeppni við austur blokkirnar sem voru að ganga inn í Evrópusambandið. Starfslok voru því hjá fyrirtæki sem framleiddi loftræstikerfi sem nýttu endurnýjanlega orku.“

Tilviljun réði því að Ingvi lenti hjá Rafha

Ingvi fór hins vegar á námssamning í rennismíði hjá Vélsmiðjunni Óðni í Keflavík og lauk sveinsprófi 1965. Þaðan lá leiðin í undirbúningsdeild Tækniskóla Íslands, sem var nýstofnaður, 1966 og lauk fyrrihluta námi í tæknifræði. Í framhaldi hóf Ingvi nám í Tækniskóla Álaborgar 1968 og útskrifaðist sem véltæknifræðingur 1971 sem aðalfag straumvélar eða túrbínur.

„Það er svo haustið 1971 sem ég byrjaði hjá Raftækjaverksmiðjunni í Hafnarfirði eða Rafha og starfaði sem véltæknifræðingur og aðstoðarforstjóri næstu átta árin með þáverandi forstjóra Axel Kristjánssyni, en hann féll frá í júní 1979. Það var tilviljun að ég byrjaði hjá Rafha því ég gat valið um störf, nýkominn úr námi.“

Ingvi tók við forstjórastarfinu 1979 og gegndi því til 1989 en þá var grundvöllur brostinn og innlend framleiðsla gat engan veginn borið sig. Íslenska ríkið, sem átt 33 prósenta eignarhlut í Rafha en það var að undirlagi Eysteins Jónssonar, hafði ekki áhuga á breyttri starfsemi.

„Í byrjun árs 1990 náðust samningar milli mína og stjórn Rafha um sölu á lager og nafni Rafha með því skilyrði að nýja félagið Rafha ehf. annaðist ábyrgðaþjónustu við eigendur tækja sem keyptu voru í Rafha. Ég starfaði sem framkvæmdastjóri til 2016. Nú er ný kynslóð tekin við stýrinu. Börnin mín þrjú. Egill Jóhann sem framkvæmdastjóri, Sólveig Heiða sem bókari og gjaldkeri og Kristinn Þór sem stjórnaformaður.“

Sáttur við starfslokin

Ingvi segir systkinin fimm og öll eru þau við góða heilsu. Ákveðið hafi verið að Gústi bróðir hans héldi sína afmælisveislu í Noregi, með sinni stórfjölskyldu.

„En hann verður gestur minn á laugardaginn. Þegar við urðum sjötugir héldum við veisluna saman. Í Rafha. Sem var gaman. 

Nú er ég að ljúka lífsstarfinu með því að hóa saman mínu fólki og samstarfsmönnum.“

Ingvi er sáttur þegar hann lítur yfir farinn veg. 

„Ég hef lent í áföllum eins og flestir og unnið mig út úr þeim. Svo náttúrlega urðum við illa úti í hruninu sem er kafli útaf fyrir sig. Svo var reksturinn oft erfiður í verðbólgunni. Svakalegar breytingar í efnahagsmálum, ýmist í ökla eða eyra. Hundrað og tíu prósenta verðbólga í tíð Steingríms Hermannssonar. Og svo önnur sveifla þegar Gunnar Thoroddsen var forsætisráðherra. Þá vorum við að tala um þriggja stafa tölu í verðbólgunni.“

Ingvi segir það ekki hafa verið neitt grín að búa við þau ósköp. Og skuldastaðan hafi verið erfið eftir hrun 2008.

„En 2015 til 2016 fór að birta til og það hefur verið góður gangur í þessu síðustu árin. Nú eru börnin að taka við þessu. Ég laus allra mála og börnin sjá um reksturinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×