Innlent

Mál Grinda­víkur ekki á dag­skrá fyrr en á fimmtu­dag

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Gubrandur Einarsson er síður en svo sáttur með breytingar á dagskrá þingnefnda.
Gubrandur Einarsson er síður en svo sáttur með breytingar á dagskrá þingnefnda. Vísir/Vilhelm

Þingmaður Viðreisnar segir skrýtið að fyrsta fundi velferðarnefndar Alþingis eftir jólafrí hafi verið frestað um tvo daga og furðar sig á að mál Grindavíkur verði ekki rædd á þeim fundi. Hann segir vinnubrögðin óboðleg.

Guðbrandur Einarsson þingmaður Viðreisnar og fulltrúi flokksins í velferðarnefnd Alþingis furðar sig á þessum málum í pistli sem hann birti á Facebook í gær. Eins og greint var frá í gærmorgun voru fyrstu fundir fjögurra fastanefnda þingsins, eftir jólafrí, á dagskrá í gær. 

Guðbrandur greinir þó frá því að fundir hafi verið felldir niður í mörgum nefndum án útskýringa.

„Í gær óskaði ég eftir því að málefni Grindavíkur yrðu sett á dagskrá á fyrsta fundi velferðarnefndar sem átti að vera í dag en er nú fyrirhugaður á miðvikudag. Ég fékk hins vegar það svar að ekki sé gert ráð fyrir að setja þau mál á dgaskrá fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudag,“ skrifar Guðbrandur í pistlinum.

„Mér þykir skrítið að ekki sé verið að funda í velferðarnefnd þegar staðan í samfélaginu er eins og hún er, ekki bara í Grindavík heldur einnig á svo mörgum sviðum.“

Hann segir til að mynda mjög brýnt að ræða heilbrigðismálin, sem séu í algjörum ólestri þar sem tugir hafi þurft að liggja á göngum Landspítalans og eldra fólk fái ekki þá þjónustu sem það þurfi á að halda. 

„Mér finnst þetta ekki boðleg vinnubrögð,“ skrifar þingmaðurinn. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×