Breska ríkisútvarpið greinir frá málinu en söngkonan fannst látin á heimili sínu í júlí. Hún var 56 ára gömul en ekki hafði verið greint frá dánarorsök hennar fyrr en nú.
Í stuttri tilkynningu frá dánardómstjóra segir að ekkert óeðlilegt hafi komið í ljós við krufningu hennar. Rannsókn málsins sé lokið.
Sinéad gaf alls út tíu breiðskífur og öðlaðist heimsfrægð árið 1990 þegar hún gaf út ábreiðu af Nothing Compares 2 U eftir Prince. Lagið var efst á lista Billboard yfir smáskífur ársins árið 1990.
Söngkonan lét eftir sig þrjú börn. Sonur hennar Shane O’Connor féll fyrir eigin hendi í fyrra aðeins sautján ára að aldri.