Innlent

Velti bílnum með lög­regluna á hælunum og reyndi að flýja

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Lögreglan hafði afskipti af nokkrum ökumönnum í dag.
Lögreglan hafði afskipti af nokkrum ökumönnum í dag. Vísir/Vilhelm

Lögregla veitti ökumanni eftirför um fimmleytið í morgun. Maðurinn ók bílnum á vegrið og valt bíllinn nokkrar veltur í kjölfarið. Ökumaðurinn var handtekinn eftir misheppnaða flóttatilraun.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Þar segir að ökumaður hafi ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu og því hafi honum verið veitt eftirför.  Skömmu fyrir veltuna hafi hraði bílsins mælst 160 km/klst. Farþegi í bílnum reyndist lítillega slasaður og var ökumaður einnig fluttur á heilbrigðisstofnun með áverka sem voru ekki lífshættulegir.

Málið er til rannsóknar og er ökumaður grunaður um akstur undir áhrifum áfengis en neitaði hins vegar að blása í áfengismæli. Í dagbók lögreglu segir að ökumenn sem neiti að gefa öndunarsýni sæti almennt lengri sviptingu ökuréttinda en ella.

Ætlaði að bremsa en gaf í

Fleiri ökumenn voru til vandræða. Í Miðborginnivar ökumaður stöðvaður án ökuréttinda en sá „hefur ítrekað verði stöðvaður vegna réttindaleysis áður“.

Í Kópavogi olli ökumaður „lítillegu eignatjóni þegar hann ók á grindverk“ en „þegar lögregla mætti á vettvang reyndist ökumaður hafa stigið á inngjöfina þegar hann hugðist bremsa“. Áreksturinn var afleiðing þess en engin slys urðu á fólki.

Þá var tilkynnt um ökutæki utan vegar á Þingvallavegi með ökumanni innanborðs. Það reyndist vera slysalaust umferðaróhapp.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×