Innlent

Vís­bending um að kviku­þrýstingur sé að byggjast upp

Jón Þór Stefánsson skrifar
Síðasta eldgos var við Sundhnjúkagíga norðan Grindavíkur. Talið er að næsta gos verði á svipuðum slóðum.
Síðasta eldgos var við Sundhnjúkagíga norðan Grindavíkur. Talið er að næsta gos verði á svipuðum slóðum. Vísir/Vilhelm

Enn hægist á landrisi við Svartsengi, en það er vísbending um að kvikuþrýstingur sé að byggjast upp og þar með aukist líkur á nýju kvikuhlaupi og eldgosi. Þetta kemur fram í uppfærslu frá Veðurstofu Íslands, en þar segir að ekki sé útilokað að það dragi úr kvikuinnflæði.

Mat vísindamanna er enn að ef að til eldgoss komi sé líklegast að það gjósi aftur á Sundhnúksgígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells.

„Það er hins vegar mikilvægt að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum,“ segir í tilkynningunni.

Þá er minnst á jarðskjálfta sem voru við Trölladyngju fyrir tveimur dögum, þann 3. janúar. Þeir urðu á þekktri jarðskjálftasprungu þar sem stærri skjálftar hafa orðið nokkrum sinnum áður, segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

„Engin merki eru um að þeir tengist kvikuhreyfingum beint. En, þær miklu landbreytingar sem hafa orðið á Reykjanesi í tengslum við kvikugangana í Fagradalsfjalli, landrisi við Svartsengi, kvikuganginn við Sundhnúk 10. nóvember og eldgosið 18. desember hafa mælst á öllu vestanverðu Reykjanesinu og hafa áhrif á skjálftavirkni á svæðinu öllu,“ segir í uppfærslunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×