Innlent

Loka grunn­skólanum á Hólum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Grunnskólinn austan Vatna hefur verið rekinn á Hofsósi og Hólum síðan árið 2007. Nú verður starfsemin öll á Hofsósi.
Grunnskólinn austan Vatna hefur verið rekinn á Hofsósi og Hólum síðan árið 2007. Nú verður starfsemin öll á Hofsósi. Vísir/Vilhelm

Grunnskólanum austan Vatna á Hólum verður lokað frá og með næsta skólaári. Þess í stað fara nemendur skólans á Hofsós í skóla. Einungis níu nemendur voru við skólann á síðustu önn. 

Þetta kemur fram í fundargerð byggðarráðs Skagafjarðar. Líkt og greint hefur verið frá hér á Vísi hefur starfsemi skólans verið til endurskoðunar upp á síðkastið en einungis níu nemendur voru þar á síðustu önn. 

Í fundargerðinni segir að erfitt sé að tryggja nemendum grunnskólans austan Vatna á Hólum viðeigandi tækifæri til að þroskast og þá greinabundnu menntun sem þeir eiga rétt á. Einnig sé litið til rekstrarlega og kennslufræðilegra sjónarmiða, skólaþróunar og þróunar á stoðþjónustu. 

„Með hliðsjón af þessu leggur fræðslunefnd til að starfsemi Grunnskólans austan Vatna á Hólum verði sameinuð starfsemi Grunnskólans austan Vatna á Hofsósi og að frá og með skólaárinu 2024-2025 muni kennsla grunnskólabarna eingöngu fara fram á Hofsósi. Fræðslunefnd mun á næstu mánuðum leggja fram tillögur um hvernig hægt verði að tryggja gott samstarf á milli leik - og grunnskóla og aukið aðgengi að frístundaiðkun fyrir alla nemendur,“ segir í fundargerðinni. 

Byggðarráðið samþykkir tillögu fræðslunefndarinnar, sem og tillögu um að ráðast í lagfæringar á aðgengismálum við skólann á Hofsósi. Þá verði gert ráð fyrir fjármögnun á lokahönnun aðaluppdrátta endurgerðar skólahúss, íþróttahúss og lóðar skólans í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×