Lífið

Passar upp á að vera með­vitaður um for­réttindi sín

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Emmsjé Gauti segist fíla jólin meira með hverju árinu sem líður.
Emmsjé Gauti segist fíla jólin meira með hverju árinu sem líður.

Tónlistarmaðurinn Gauti Þeyr, þekktur sem Emmsjé Gauti, segir spilakvöld áralanga hefð innan fjölskyldunnar á aðventunni þar sem keppnisskapið gerir vart við sig. Til að viðhalda spennunni og bæta í gleðina fyrir jólin ákvað hann og Arnar „no face“, vinur hans og meðstjórnandi hlaðvarpsins Podkastalinn, að gefa út nýtt spil. 

„Það er eiginlega ógeðslega skrítið að við fjölskyldan ákveðum að hittast í árlegt spilakvöld þar sem  keppnisskapið er svo rosalegt. Það verða allir svo reiðir. Við erum að tala um jólin sem Risk eyðilagði nánast fjölskylduna,“ segir Gauti og hlær.

Að sögn Gauta kom nýja spilið til Arnars í draumi fyrir um tveimur árum. Spilið ber heitið Læti og segir Gauti spilið næstum því vera eins og Actionary.

„Hann dreymdi að hann væri að spila actionary en mátti ekki leika, sem er náttúrulega fáránlegt. Hann hugsaði því nafnið soundinary, sem er acitonary nema þú mátt aðeins gefa frá þér hljóð, úr varð Læti,“ segir Gauti hlæjandi. Hann tekur fram að hann mæli ekki með því að spila spilið í flugvél. 

Jólin mega vera klisja

Að sögn Gauta var hann sannkallaður Trölli þegar hann var unglingur. Honum þótti heimurinn ósanngjarn og hugmyndin um heilög jól því fjarstæðukennd. 

„Ég flutti snemma að heiman og aftengist því sem skiptir verulega máli í smá stund en svo þegar ég varð 25 ára og fór að stofna fjölskyldu kom þetta aftur. Ég er alinn upp á góðu heimili og jólin voru alltaf frábær,“ segir Gauti á einlægum nótum. 

„Í dag get ég sagt mér að ég geti átt gott líf þó svo að aðrir hafi það slæmt, á meðan ég passa upp á það að vera meðvitaður um forréttindi mín og gleyma mér í einhverri geðveiki,“ segir hann.

Gauti segir fjölskylduna spila mikið saman.

Farinn að sjá fegurðina í hversdagsleikanum

Að sögn Gauta færist áherslan að því sem verulega skiptir máli með hverju árinu sem líður. 

„Þegar maður fer að eldast fer maður að sjá fegurðina í hversdagsleikanum og meta litlu hlutina. Við Jovana, konan mín, kennum börnunum okkar að jólin snúast samveru og að borða góðan mat saman, og að við gefum ekki öllum gjafir,“ segir Gauti. Samveran skipti öllu.

„Þetta hljómar kannski kaldhæðnislega og eins og einhver neysluhyggja nú þegar ég er bæði að gefa út spil og halda árlegu jólatónleikana mín, en þetta er samt raunverulega það sem mér finnst gaman að gera.“

Útgáfupartý í Spilavinum

Í tilefni útgáfu spilsins býður Gauti í teiti í Spilavinum þar sem hann treður upp fyrir gesti og áritar spilin. 

„Ég valdi þennan stað þar sem ég elska að koma þarna með börnin mín. Þetta er svona staður sem hin fullkomna amma innréttaði. Starfsmenn spila við börnin og kenna þeim. Á meðan geta foreldrar setið og notið kaffibollans,“ segir Gauti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×