Tónlist

Frum­sýning á Vísi: Jólatónlistarmyndband Más og Ladda

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tónlistarmyndbandið við lagið Mér finnst ég bara eiga það skilið kom út í dag. 
Tónlistarmyndbandið við lagið Mér finnst ég bara eiga það skilið kom út í dag.  Már Gunnarsson

Óympíufarinn og tónlistarmaðurinn Már Gunnarsson og skemmtikrafturinn Laddi hafa tekið höndum saman við gerð jólalagsins Mér finnst ég bara eiga það skilið. Tónlistarmyndband við lagið frumsýna þeir í dag. 

Lagið kom út í lok októbermánaðar en nú hafa Már og Laddi slegið í tónlistarmyndband við það. Myndbandið má sjá hér að neðan. Lagið er eftir Má og textinn eftir Tómas Eyjólfsson.

„Ég samdi þetta lag fyrir stuttu síðan og mér leið rosalega mikið eins og þetta ætti að vera jólalag,“ segir Már í samtali við Vísi. Hann og Laddi kynntust fyrir tveimur árum þegar sá síðarnefndi lék í tónlistarmyndbandi við lag Más Vinurinn vor. 

„Og ég heyrði Ladda bara svo ofboðslega mikið fyrir mér í þessu lagi,“ segir Már. Hann segir Ladda hafa verið meira en til í að vinna með honum að útgáfunni. „Sem er náttúrlega bara gríðarlegur heiður fyrir mig,“ segir Már.

Fjallar um að líta á björtu hliðarnar

Már segist fyrst hafa átt í vandræðum með hvernig jólalag hann vildi semja. Búið sé að semja jólalög um svo margt.  

„Það sem mér fannst vanta í umræðuna var bara: Hey! Jólin geta bara verið ótrúlega erfið fyrir rosalega marga,“ segir Már. 

Hann segir að lagið fjalla um að þrátt fyrir að lífið sé stundum erfitt þá megi alltaf líta á björtu hliðarnar og gera sér glaðan dag. Öll eigum við skilið að komast í hátíðarskap um jólin. „Og meginskilaboðin eru bara, mér finnst ég eiga það skilið.“

Jólalagið er svo sannarlega ekki það fyrsta sem Már gefur út en hann og Ísold systir hans sigruðu Jólalagakeppni Rásar 2 árið 2019 með laginu Jólaósk

Már og Laddi auk hljóðfæaraleikara lagsins. Már Gunnarsson

„Mér þykir líka svo vænt um þetta því ég er með stórkostlega hljóðfæraleikara með mér í þessu,“ segir Már. Hann segir nokkra færustu hljóðfæraleikara landsins auk strengjakvartetts úr Royal Northern College of Music í Manchester, þar sem hann lærir, hafa spilað inn á upptökuna. 

„Þannig að þetta er svolítið svona alþjóðlegt hjá okkur. Við erum bæði með íslenska hljóðfæraleikara og heimsklassa strengjasveit frá Manchester og svo eru líka ég og Laddi,“ segir Már. 

Hægt er að hlusta á lagið á Spotify hér


Fleiri fréttir

Sjá meira


×