Innlent

Færan­lega neyðar­sjúkra­húsið komið í notkun í Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
Sjúkrahúsið í Eistlandi skömmu áður en það var flutt til Úkraínu.
Sjúkrahúsið í Eistlandi skömmu áður en það var flutt til Úkraínu. Þórir Guðmundsson

Færanlega neyðarsjúkrahúsið sem Alþingi ákvað í vor að gefa úkraínsku þjóðinni, er komið til Úkraínu og hefur verið tekið í gagnið.

Þetta kemur fram á vef utanríkisráðuneytisins þar sem segir að heildarkostnaður við verkefnið hafi numið 7,4 milljónum evra, um 1,1 milljarði króna. Sjúkrahúsið sé mikilvæg viðbót og komi að góðum notum við að hlúa að særðum hermönnum og borgurum nærri vígvellinum.

Þórir Guðmundsson

Fram kemur að húsnæðið samanstandi af tíu gámaeiningum sem myndi fullbúið sjúkrahús sem hægt sé að reka sjálfstætt og án stuðnings svo dögum skiptir. 

„Hægt er að haga uppröðun eininganna eftir þörfum á hverjum tíma og tengja við önnur sjúkrahús sömu gerðar. Þar er m.a. að finna fullbúnar skurðstofur, gjörgæslurými, móttöku- og greiningarrými, stoðeiningar með rafstöð, súrefnispressu, sótthreinsiaðstöðu salernis- og bað- og þvottaaðstöðu auk sérhæfðra geymslurýma,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra að það sé sérstakt ánægjuefni að geta stutt við vini í Úkraínu með þessum beina hætti. „Samstarfið við Eista og Þjóðverja í þessu verkefni hefur verið til fyrirmyndar og það gleður okkur að vita að sjúkrahúsið kemur að góðum notum við að bjarga lífum og lina þjáningar þeirra sem særast í réttmætri varnarbaráttu þjóðarinnar gagnvart rússneska innrásarliðinu,“ segir Bjarni .

Þórir Guðmundsson

Í tilkynningunni segir að afkastageta sjúkrahússins sé veruleg, legupláss fyrir fjörutíu sjúklinga hverju sinni og hægt að sinna 240 sjúklingum á sólarhring sem og allt að 24 alvarlega slösuðum. 

„Þá eru gámaeiningar sjúkrahússins fluttar á milli staða á sérútbúnum hervörubílum, sem þýski herinn gaf til verkefnisins.

Verkefnið var unnið í þéttu samstarfi við Eistland þar sem sjúkrahúsin voru hönnuð og framleidd. Eistneski herinn sá jafnframt um að þjálfa úkraínska starfsliðið sem rekur sjúkrahúsið. Áður höfðu Holland, Noregur og Þýskaland gefið samskonar sjúkrahús í samstarfi við Eista og verður hægt að samnýta þau eftir þörfum.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×