Innlent

Löng bíla­röð til Grinda­víkur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Grindvíkingar við lokunarpóstinn á mótum Krýsuvíkurvegar og Suðurstrandarvegar.
Grindvíkingar við lokunarpóstinn á mótum Krýsuvíkurvegar og Suðurstrandarvegar. Vísir/EinarÁrna

Töluvert löng bílaröð er nú á Krýsuvíkurvegi frá gatnamótunum við Suðurstrandarveg. Um er að ræða Grindvíkinga á leiðinni heim til sín til að frekari verðmætabjörgunar.

Ríkislögreglustjóri, í samráði við Lögreglustjórann á Suðurnesjum, ákvað í gær að breyta almannavarnarstigi vegna jarðhræringa við Grindavík, af neyðarstigi niður á hættustig frá og með klukkan ellefu í dag. 

Íbúar í Grindavík voru beðnir um að skrá sig á Island.is og sækja þar um heimild til að fara til bæjarins í dag. Slíkri heimild þarf að framvísa við lokunarpóstinn á Suðurstrandarvegi.

Það var ákveðið í kjölfar á nýju stöðumati Veðurstofu Íslands, þar sem fram kom meðal annars að líkur á skyndilegri gosopnun innan bæjarmarka Grindavíkur hafi farið minnkandi með hverjum degi og eru í dag taldar litlar. 

Árni sem reddar öllu er með gott pláss í sendibílnum.Vísir/EinarÁrna

Land rís ennþá í Svartengi og kvika þar gæti flætt á ný undir í kvikuganginn undir Grindavík. Veðurstofan segir að fyrirboða um slíka atburðarrás yrði hægt að greina á skjálfta- og GPS mælum.

Eins og sjá má á myndum sem Einar Árnason tökumaður fréttastofunnar tók er bílaröðin nokkuð löng. Hált er á vegum og ástæða til að fara að öllu með gát.

Hált er á vegum og ástæða til að fara að öllu með gát.Vísir/EinarÁrna

Íbúar í Grindavík hafa til klukkan fjögur síðdegis til að vera í bænum. Þá verður hann rýmdur. Komi til rýmingar vegna hættuástands munu viðbragðsaðilar þeyta sírenum og ljósmerkjum á ökutækjum og þýðir það tafarlaus rýming á svæðinu samkvæmt rýmingaráætlun. Rýmingarleiðir út bænum eru eftir Suðurstrandavegi eða Nesvegi.

Að neðan má sjá tilhögunina af veg almannavarna:

  • Íbúar í Grindavík beðnir um að skrá sig á www.island.is og fá þar heimild til þess að fara inn. Heimildin mun berast fljótt.
  • Þeir íbúar sem nú þegar hafa fengið staðfesta skráningu á beiðni til að fara inn í húseign þurfa ekki að sækja um aftur.
  • Grindavík er lokuð fyrir öllum öðrum en íbúum bæjarins og þeim sem aðstoða íbúa.
  • Grindavíkurvegur er lokaður, en hægt er að aka Nesveg og Suðurstrandarveg.
  • Mælst er til þess að fólk komi á eigin bílum, hámark 1 bíl á hvert heimili. Ekki er æskilegt að börn séu tekin með sökum aðstæðna á staðnum.
  • Gámabílar, gámar eða gámaflutningatæki, stórir sendibílar, kassabílar og kerrur eru ekki leyfð í íbúðahverfum vegna hættu á því að þau tefji eða hindri aðra umferð, með tilliti til öryggi fólks á svæðinu.
  • Hvorki er virkt frárennsli né rennandi vatn þannig að ekki hægt að nota salerni í húsum í Grindavík. Stefnt er að koma upp salernum í bænum.
  • Mælt er með að fólk komi með vatn og önnur matföng fyrir daginn því ekki er hægt að nálgast slíkt í bænum.
  • Hafa ber í huga að hús gætu verið ótrygg. Hægt er að hafa samband við viðbragðsaðila á staðnum.
  • Ekki er svigrúm til að íbúar flytji búslóðir sínar í burtu heldur að þeir geti tekið með sér helstu verðmæti og fatnað. Huga þarf að forgangsröðun þeirra hluta sem komast í bílinn sem notaður er.
  • Þeim íbúum í skemmdum húsum sem þegar hafa fengið leyfi er heimilt að flytja búslóðir sínar burt.
  • Mikilvægt er að hvert og eitt heimili skrái hjá sér þau verðmæti sem tekin eru úr húsunum og hafi samband við sitt tryggingafélags vegna þess.
  • Eigendur húsa eru hvattir til þess að koma kyndingu í lag en von er á kólnandi veðri á næstunni.
  • Iðnaðarmenn og íbúar verða að störfum í húsum þar sem hitaveita er ekki í lagi.
  • Íbúar eru hvattir til þess að ganga um og frá húsum sínum með þeim hætti að komið geti til rýminga með stuttum fyrirvara.
  • Mikilvægt er að þau sem fara til Grindavíkur fylgi tilmælum viðbragðsaðila á öllum stundum.
  • Athygli er vakin á að á sama tíma og íbúar fá aðgang er unnið að öðrum verkefnum í bænum.
  • Fjölmiðlum er heimilaður aðgangur.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×