Innlent

Ráðu­neytið að­hefst ekki frekar vegna nýrrar Dimmalimm

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sagan af Dimmalimm í upprunalegri útgáfu og nýrri útgáfu.
Sagan af Dimmalimm í upprunalegri útgáfu og nýrri útgáfu. Forlagið/Óðinsauga

Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur ákveðið að aðhafast ekki frekar vegna nýrrar útgáfu af Dimmalimm eftir Guðmund Thorsteinsson (Mugg). Útgefandinn fagnar niðurstöðunni en gerir alvarlegar athugasemdir við framgöngu ráðuneytisins.

Frá þessu greinir Morgunblaðið.

Málið snérist um athugasemdir erfingja Muggs, sem settu sig upp á móti útgáfunni, og stjórnar Rithöfundaasambandsins sem sögðu um að ræða mögulegt brot á sæmdarrétti listamannsins.

Það var niðurstaða ráðuneytisins að ekki væri brotið gegn sæmdarréttinum, þar sem skýrt væri tekið fram að Muggur væri höfundur ævintýrisins en myndskreytingarnar væru nýjar.

Huginn Þór Grétarsson bókaútgefandi hafði kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna framgöngu ráðuneytisins. Honum hefur verið tjáð að eftir að nú þegar niðurstaða liggi fyrir þurfi hann að senda inn nýja kvörtun.

Huginn segist enn ósáttur við framgöngu Rithöfundasambandsins og Myndstefs, sem einnig gerði athugasemdir við útgáfuna.

„RSÍ og Mynd­stef þurfa aug­ljós­lega að afla sér meiri þekk­ing­ar áður en full­trú­ar sam­tak­anna tjá sig um þessi mál. Eðli­legt er að þessi fé­lög biðji mig af­sök­un­ar á fram­ferði sínu,“ segir hann. Ráðuneytið hefði sömuleiðis átt að afla sér meiri upplýsinga. „Í stað þess létu þeir mig vinna vinnu sem þeir áttu að gera sjálf­ir eða greiða öðrum sér­fræðing­um fyr­ir.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×