Innlent

Vélinni lík­lega flogið heim frá Ind­landi á næstu vikum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Icelandair-vélin var á Lal Bahadur Shastri-flugvellinum
Icelandair-vélin var á Lal Bahadur Shastri-flugvellinum Vísir/Vilhelm

Afturhluti vélar Icelandair straukst við flugbraut í lendingu á Lal Bahadur Shastri flugvellinum á Indlandi fyrr í mánuðinum. Gert er ráð fyrir því að hægt verði að fljúga vélinni aftur heim fljótlega. Flugvirkjar voru með í fluginu sem hófu strax vinnu við að meta tjónið. 

Gert er ráð fyrir því að hægt verði að fljúga vél Icelandair sem lenti í tjóni á Indlandi nýverið fljótlega aftur heim. Það segir upplýsingafulltrúi Icelandair, Guðni Sigurðsson, í svari til fréttastofu. 

„Það er rétt að við lendingu flugvélar Icelandair sem var í leiguverkefni á Indlandi á Lal Bahadur Shastri flugvelli straukst afturhluti vélarinnar við flugbraut. Farþegar urðu þess ekki varir og engin slys urðu á fólki,“ segir Guðni.

Guðni segir að flugvirkjar hafi verið með í ferðinni og að strax við lendingu hafi þeir hafist handa við að meta það tjón sem varð á vélinni. Hann segir að önnur vél hafi verið send á eftir farþegunum og klárað leiguverkefnið.

RNSA og Samgöngustofu tilkynnt um atvikið

Hann segir atvikið þegar hafa verið tilkynnt til Rannsóknarnefndar samgönguslysa sem hafi haft samband við rannsóknarnefnd á Indlandi. 

Þá hefur Samgöngustofa einnig verið upplýst um málið en það staðfestir starfsmaður Samgöngustofu í pósti til fréttastofu. Í svari þeirra kemur fram að þeim sé þó ekki heimilt að gefa efnislegar upplýsingar um tilkynnt atvik. 

Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa var atvikið tilkynnt til þeirra samdægurs og það varð. 

„Flugrekandinn tilkynnti svokallað „tailstrike“ á B757-200 flugvél á Indlandi til RNSA föstudaginn 10. nóvember, sem er sami dagur og atvikið varð. Samkvæmt verklagi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO), þá tilkynnti RNSA atvikið til rannsóknarnefndar flugslysa í Indlandi sama dag,“ segir í svari til fréttastofu um málið.

Þar kemur enn fremur fram að málið sé nú til rannsóknar hjá indverskum yfirvöldum og RNSA aðstoði við þá rannsókn.

„Talsverðar líkur eru á að rannsókn málsins færist í framhaldinu yfir til RNSA,“ segir að lokum.

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að svar barst frá Samgöngustofu um málið. Uppfært klukkan 15:45 þann 22.11.2023.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.