Innlent

Flutti 140 pakkningar af dópi til landsins inn­vortis

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn kom til landsins með flugi frá Amsterdam í Hollandi 25. september síðastliðinn.
Maðurinn kom til landsins með flugi frá Amsterdam í Hollandi 25. september síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í sautján mánaða fangelsi fyrir að hafa reynt að smygla 800 grömmum af kókaíni og hálfu kílói af hassi til landsins.

Maðurinn var ákærður fyrri stórfellt fíkniefnalagabrot en hann flutti efnin innvortis þegar hann kom með flugi til landsins frá Amsterdam í Hollandi 25. september síðastliðinn. Maðurinn er erlendur ríkisborgari og fæddur árið 1990. Hann játaði afdráttarlaust sök í málinu.

Fyrir liggur að hann hafði gleypt 140 pakkningar af fíkniefnum fyrir flugferðina til Íslands – fimmtíu pakkningar af hassi og níutíu pakkningar af kókaíni. Hann tjáði lögreglu eftir handtöku að hann hafi staðið í þeirri trú að einungis hafi verið um hasspakkningar að ræða.

Þó var bent á að hassið hafi verið vafið í þunnan smjörpappír og ljósu límbandi, en kókaínið í þunnt plast og svörtu límbandi. Því hafi verið um gjörólíkar pakkningar að ræða.

Dómari mat það sem svo að ekki hafi verið unnt að fallast á með manninum að honum bæri að hljóta vægari refsingu þar sem hann væri nýlega orðinn faðir í heimalandi sínu eða ætti mjög veika móður. Það hafi verið honum í sjálfsvald sett að ákveða og skipuleggja ferð sína hingað til lands.

Dómari mat það ennfremur sem svo að ákærði ekki endilega verið eigandi efnanna þó að hann hafi tjáð lögreglu að hann væri eigandi efnanna og hefði pakkað þeim sjálfur í umbúðir. Rétt væri að miða við að hann væri svokallað burðardýr í málinu.

Dómarinn í málinu mat hæfilega refsingu vera sautján mánaða fangelsi, en að til frádráttar kæmi gæsluvarðhald sem hann hafði sætt frá komunni til landsins. Þá var honum gert að greiða samtals 1,3 milljónir króna vegna þóknunar til skipaðra verjenda og ferða- og aksturskostnað þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×