Innlent

Beina sjónum sínum helst að miðju gangsins

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Líklegasti upptakastaður, ef til goss kæmi, er yfir kvikuganginum að sögn Kristínar.
Líklegasti upptakastaður, ef til goss kæmi, er yfir kvikuganginum að sögn Kristínar. Vísir/Vilhelm

Smáskjálftavirkni í kvikuganginum við Sundhnúk heldur áfram og GPS gögn sýna að gliðnun heldur áfram. Jarðeðlisfræðingur og deildarstjóri hjá Veðurstofunni segir stöðuna svipaða og í gær og að þau eigi alveg eins von á gosi í dag, á morgun eða næstu daga.

Tæplega þúsund skjálftar hafa riðið yfir í og við kvikuganginn frá miðnætti. Engir stærri skjálftar urðu í nótt, sá stærsti mældist 2,6 laust fyrir fimm en allflestir hafa skjálftarnir verið undir tveimur. Kristín Jónsdóttir deildarstjóri hjá Veðurstofunni segir stöðuna áfram svipaða.

„Við höfum verið að horfa upp á smáskjálftavirkni í kvikuganginum og hún heldur áfram með svipuðum hætti og síðustu daga og við höfum verið að fylgjast með því að gangurinn, hann er að víkka, en það hefur heldur dregið úr þeim færslum. Það er hins vegar ekki þar með sagt að þetta minnki líkur á gosi, við sáum það eins og fyrir fyrsta gosið í Fagradalsfjalli að það var einmitt þá sem gosið kom og það var hreinlega farið að draga úr þessum færslum og úr skjálftavirkni og þá fengum við gosið þannig að það verður ennþá að teljast líkur á því að það geti gerst.“

Gasmælar sýna enn ekki neinn verulegan styrk á kvikugasi. Líklegasti upptakastaður, ef til goss kæmi, er yfir kvikuganginum að sögn Kristínar.

„Sjónir okkar beinast helst að miðju gangsins. Það virðist vera mestar færslur þar og við teljum líklegast að það gos yrði þar en við getum ekki útilokað að það yrði annars staðar.“

Kristín segir að vísindamenn séu á tánum og fylgist vel með.

„og í rauninni má segja að við séum bara í svipaðri stöðu og í gær og í fyrradag. Við erum að fylgjast mjög vel með og eigum alveg eins von á gosi í dag eða á morgun eða næstu daga og erum að fylgjast mjög vel þeim merkjum varðandi það að kvikan sé að færast nær yfirborði,“ segir Kristín Jónsdóttir jarðeðlisfræðingur og deildarstjóri hjá Veðurstofu Íslands.


Tengdar fréttir

Hvetur þá sem þegar hafa farið inn í Grindavík að hleypa öðrum að

Rafmagn fór af hluta Grindavíkur seinni partinn í dag. Yfirlögreglustjóri Almannavarna segir viðgerðarfólk á vegum HS veitna muni fara inn í Grindavík á morgun ef hættumat leyfir. Þá biðlar hann til íbúa Grindavíkur sem þegar hafa fengið að fara heim að hleypa hinum á undan sér. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×