Innlent

Ein­stakt stefnu­mót tunglsins og Venusar

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Einstakt sjónarspil má sjá nú í morgunsárið þegar tvö skærustu fyrirbæri himingeimsins mætast.
Einstakt sjónarspil má sjá nú í morgunsárið þegar tvö skærustu fyrirbæri himingeimsins mætast. Vísir/Vilhelm

Tvö skærustu fyrirbæri næturhiminsins, Venus og tunglið, eiga stefnumót nú í morgunsárið sem myndar einstaklega fallegt sjónarspil.

„Að morgni fimmtudagsins 9. nóvember 2023 verður sérstaklega glæsileg samstaða Venusar og tunglsins sjáanleg með berum augum í suðaustri. Í gegnum handsjónauka eða litla stjörnusjónauka er útsýnið sérstaklega glæsilegt.“

Þetta ritar stjörnufræðingurinn Sævar Helgi Bragason á vef sinn Stjörnufræði.is.

Þar segir jafnframt að þegar líða fari á morguninn megi sjá Venus hverfa á bakvið tunglið. Áhugasömum er bent á að líta eftir því um klukkan 09:10. Venus birtist svo aftur sjónum rétt fyrir klukkan 10.

Tunglið og Venus séð með litlum handsjónauka fimmtudagsmorguninn 9. nóvember 2023.Stjörnufræði/Sævar Helgi

Jarðskin lýsir upp tunglið

Venus og tunglið mætast á himni í hverjum mánuði, séu bæði fyrirbæri sýnileg.

„Þetta himneska stefnumót endurtekur sig því að morgni 9. desember næstkomandi. Þá verður bilið á milli þeirra reyndar mun meira. Í byrjun janúar á næsta ári er Venus komin það lágt á loft að samstöðurnar sjást ekki lengur frá Íslandi,“ segir á vef Stjörnuvefsins.

Um klukkan tíu mínútur yfir níu má sjá Venus hverfa á bak við tunglið.Vísir/Vilhelm

Tunglið er einstaklega vel upplýst þessa dagana, líkt og margir hafa eflaust tekið eftir.  Ástæða þess er ljós sem speglast af Jörðinni og lýsir upp tunglið, svokallað jarðskin.

„Þetta kallast jarðskin og er ljós sem speglast af Jörðinni og lýsir upp tunglið, rétt eins og fullt tungl lýsir upp nóttina á Jörðinni. Ef þú stæðir á tunglinu sæirðu að Jörðin er að verða full upplýst.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×