Innlent

„Ráð­herrann ber á­byrgð á öllu bixinu“

Jakob Bjarnar skrifar
Brynjar segir að Lilja komst ekkert hjá því að bera ábyrgð á þeim styrkjum sem féllu til fjölmiðla, jafnvel þó hún vilji fela sig á bak við óháða úthlutunarnefnd.
Brynjar segir að Lilja komst ekkert hjá því að bera ábyrgð á þeim styrkjum sem féllu til fjölmiðla, jafnvel þó hún vilji fela sig á bak við óháða úthlutunarnefnd. vísir/vilhelm

Brynjar Níelsson, fyrrverandi aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir Lilju D. Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, kjósa að fela ábyrgð sína við útdeilingu styrkja til fjölmiðla.

„Til að tryggja að úthlutun úr þessari ótakmörkuðu auðlind sé fagleg er sérstakri úthlutunarnefnd falið verkefnið,“ skrifar Brynjar á Facebook-síðu sína. Hann beitir stílbragði því sem hann hefur óspart verið að slípa undanfarin ár, sem er háðið:

„Engir aukvisar sem tilnefna í hana en það eru Hæstiréttur Íslands, hvorki meira né minna, Ríkisendurskoðandi og svo er alltaf af óskiljanlegum ástæðum háskólunum falið að tilefna einn. Skil ekki af hverju ráðherra tilnefnir ekki í nefndir og stjórnir í stað þess að þvæla öðrum stofnunum í verkið sem kemur þetta ekkert við og er ætlað allt annað hlutverk. Það er nú einu sinni þannig að það er ráðherrann sem ber ábyrgð á öllu bixinu.“

Eins og Vísir greindi frá fyrir helgi var fjölmiðlum úthlutað styrkjum. Og sýnist sitt hverjum.

Það sem vekur sérstaka athygli Brynjars er sú staðreynd að Heimildin, sem er talsvert miklu minni miðill en til að mynda þeir sem Morgunblaðið rekur, hlýtur helming þeirrar upphæðar sem féll til Árvakurs.

„Miklar gleðifregnir bárust okkur á föstudaginn þegar tilkynnt var um 470 milljóna úthlutun frá skattgreiðendum til einkarekinna fjölmiðla. Þar af fékk rekstrarfélag Heimildarinnar rúmlega 54 milljónir. Það hlýtur að duga þeim eitthvað til að halda áfram að grafa undan íslensku atvinnulífi og sverta orðspor Íslands um allan heim,“ skrifar Brynjar. Og bætir því við að það sé þó ekkert á við tæpu sjö milljarðana sem RÚV fái í sama verkefni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×