Innlent

„Gríðar­lega brugðið eins og allri þjóðinni“

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Dómsmálaráðherra segir nauðsynlegt að bregðast við auknu ofbeldi sem virðist vera að færast á næsta stig.
Dómsmálaráðherra segir nauðsynlegt að bregðast við auknu ofbeldi sem virðist vera að færast á næsta stig. Vísir/Ívar Fannar

Dómsmálaráðherra segist slegin vegna skotárásar sem átti sér stað í Úlfársárdal í gærnótt. Ofbeldisárásir virðist vera að færast upp á næsta stig og nauðsynlegt sé að bregðast við. Frumvarp um breytingar á lögreglulögum sé tilraun til þess.

„Mér var gríðarlega brugðið eins og ég tel að allri þjóðinni hafi verið,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, spurð um viðbrögð sín við fregnum af skotárásinni í gær. Tveir ungir menn urðu fyrir skotum í skotárásinni í Úlfarsáradal í gær, annar særðist en hinn slapp með skrámu. Mikil mildi þykir að ekki hafi farið verr. 

„Við höfum séð aukna hörku og aukið ofbeldi á síðustu misserum. Ég hef haft þungar áhyggjur af meiri hnífaburði og hnífaárásum sem hafa verið endurteknar. Núna virðist þetta hafa færst á næsta stig og þarna eiga skotvopn í hlut. Það vekur ugg í mínu brjósti og þetta krefst þess að það verður að bregðast við með einhverjum hætti,“ segir Guðrún.

Frumvarp til að bregðast við aukinni hörku og ofbeldi

Lögregla hafi í langan tíma hafa bent á og lýst yfir áhyggjum af auknu ofbeldi og skipulagðri glæpastarfsemi.

„Ég vil þá minna á að í þessari viku lagði ég í samráðsgátt, frumvarp um breytingu á lögreglulögum þar sem við erum að bregðast við þessum ábendingum lögreglu um að það séu merki um aukna hörku, aukið ofbeldi, aukna skipulagða glæpastarfsemi. Við Íslendingar verðum að bregðast við og það er ég að gera með framlagningu á þessu frumvarpi.“

Nái frumvarpið fram að ganga verði lögreglunni veittar auknar heimildir til gagnaöflunar, gagnavinnslu og gagnamiðlunar til afbrotavarna.

„Ég vil líka leggja áherslu á að með auknum heimildum er ég sömuleiðis að leggja til í þessu frumvarpi stóraukið eftirlit með heimildum lögreglu sem er þá samfara því,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×