Innlent

„Þetta var svona eigin­lega eins og draumi líkast“

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Ásta Kristbjörg Bjarnadóttir, deildarstjóri slysa- og bráðamóttöku HSS.
Ásta Kristbjörg Bjarnadóttir, deildarstjóri slysa- og bráðamóttöku HSS. Vísir/Einar

Ný slysa- og bráðamóttaka hefur verið opnuð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Deildarstjóri bráðamóttökunnar segir breytingarnar draumi líkastar enda búin að vinna við ömurlegar aðstæður í mörg ár.

Starfsemi slysa- og bráðamóttöku HSS fór í gær úr níutíu fermetra rými sem var löngu orðin barn síns tíma yfir í rúmlega þrjú hundruð fermetra rými. 

„Þetta var svona eiginlega eins og draumi líkast. Við erum búin að vera í ömurlegum aðstæðum þarna hinum megin í mörg mörg mörg ár. Fólk svona vildi eiginlega ekki trúa því að við værum komin hérna yfir þannig þetta eru blendnar tilfinningar,“ segir Ásta Kristbjörg Bjarnadóttir deildarstjóri bráðamóttökunnar. 

Flutningunum fylgi þó léttir og gleði, fyrir starfsfólk og skjólstæðinga. Bráðamóttakan er fjölsótt en á ári hverju eru um sextán þúsund komur eða að jafnaði 43 komur á hverjum sólarhring. Ásta segir breytinguna algjöra byltingu frá því sem áður var.

„Við getum séð fram á að sinna fólki betur hér í heimabyggð. Við erum komin með betri tækjabúnað og betri aðstöðu bæði fyrir starfsfólk og skjólstæðinga. Þannig að með tíð og tíma vonumst við til þess að þurfa senda færri skjólstæðinga frá okkur í bæinn og geta sinnt þeim meira hérna hjá okkur,“ segir Ásta. 

Ýmis ný tæki og tól hafi einnig verið tekin í notkun auk fleira starfsfólks, þeirra á meðal er fyrsti bráðalæknir HSS sem Ásta segir að hafi verið kærkomin viðbót. Þá opnaði ný legudeild í byrjun mánaðar með nítján rúmum. „Stórglæsileg deild og ábyggilega flottasta deild á landinu,“ segir Ásta og hlær. Því til viðbótar hafi tíu hjúkrunarrými verið opnuð fyrir þá sem bíða eftir plássi á hjúkrunarheimilum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×