Innlent

Bannað að vera í símanum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Starfsmönnum er nú bannað að vera í símanum í sameiginlegum rýmum íbúa.
Starfsmönnum er nú bannað að vera í símanum í sameiginlegum rýmum íbúa. Vísir/Vilhelm

Nýjar reglur hafa tekið gildi á hjúkrúnarheimilunum Eir, Skjóli og Hömrum þar sem starfsmönnum er ekki lengur heimilt að vera í símanum í sameiginlegum rýmum stofnananna jafnt á vinnutíma og í kaffipásum.

Þetta segir Þórdís Hulda Tómasdóttir framkvæmdarstjóri hjúkrunarsviðs í samtali við Vísi. 

„Reglan er sú að þú mátt ekki vera í símanum í sameiginlegum rýmum íbúa.“

Reglubreytingin hafi komið í kjölfar vandræða með símanotkun starfsmanna. 

„Starfsmenn sátu í setustofum í Lazyboy-stólum í setustofum íbúa og það hefur verið bannað. Við gerðum veggspjöld sem við hengdum í sameiginlegum rýmum. Þetta er gert til að hnippa í starfsmenn á penan hátt. Mörg hjúkrunarheimili eru í vanda með þetta.“

Dæmi um slíkt plakat.

Hún bætir við að það sé leiðinlegt fyrir aðstandendur að reyna að ná í samband við starfsmenn þegar þeir liggja bara í símanum. Hún sé sjálfur aðstandandi. „Þetta er ekki leiðindaherferð og kemur af þörf.“

Aðspurð hvort þau hafi orðið vör við breytingar í kjölfar þessa reglna segir Þórdís: 

„Já þetta er að minnka. Ég sé það alveg, það er mikið þakklæti aðstandenda. Við erum bara að reyna okkar besta að hnippa í starfsmenn,“ segir Þórdís.

„Við stöndum ekkert hérna og gólum á starfsmenn en þetta er vegna þess að þetta er ekki í lagi.“

Þórdís segir einnig að hvergi komi fram að reglurnar ættu ekki einvörðungu við starfsmenn. Þetta sé um leið áminning til aðstandenda. 

„Það er ætlast til þess sama af þeim.“

Hún segir að þetta sé vandi sem hjúkrunarheimili hafi verið að glíma við og hvatti önnur hjúkrunarheimili til að fara að fyrirmynd þeirra. 

„Við erum að hugsa um lífsgæði íbúa. Við erum ánægð að hafa tekið þetta skref og byrjað að hnippa,“ segir Þórdís að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×