Innlent

Hættur við að fá gesta­þjóna í kvenna­verk­falli og biðst af­sökunar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Haraldur Þorleifsson, hefur hætt við sérstakan viðburð á Önnu Jónu á morgun.
Haraldur Þorleifsson, hefur hætt við sérstakan viðburð á Önnu Jónu á morgun. Vísir/Vilhelm

Haraldur Þor­leifs­son, eig­andi veitinga­hússins Önnu Jónu, er hættur við að fá þjóð­þekkta ein­stak­linga til að hlaupa í skarðið fyrir kven­kyns þjóna á morgun í til­efni af kvenna­verk­falli.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá Haraldi á sam­fé­lags­miðlinum X. Haraldur hafði meðal annars fengið þjóð­þekkta ein­stak­linga eins og Ara Eld­járn, Unn­stein Manuel, Braga Valdimar og fleiri til liðs við sig á morgun.

Áætlanirnar hafa vakið mikla at­hygli og sætt gagn­rýni. Sól­ey Tómas­dóttir er meðal þeirra sem hefur gagn­rýnt við­burðinn og Harald sjálfan. Hún hefur sagt að um bak­slag væri að ræða þar sem vel meinandi körlum sem langi til að láta leggja sitt af mörkum standist ekki freistinguna til að láta kvenna­verk­fallið snúast um sig.

Vildi búa til stað fyrir konur

Haraldur segir í til­kynningu sinni að konur, þeirra upp­lifun, þeirra sam­staða og þeirra verk­fall væri og ætti að vera aðal­at­riðið á þessum degi.

„Á morgun verða mikið af konum í bænum. Sem eig­andi veitinga­staðar í mið­bænum, sem er fyrst og fremst búinn til fyrir konur, þá vildi ég búa til stað þar sem þær getu verið saman. Með þessu gerði ég það sem karlar eins og ég gera allt­of oft og vildi reyna að vera með — í staðinn fyrir að gefa konum allt plássið eins og þær eiga skilið.“

Haraldur segist í dag hafa talað við mörg og heyrt að mörgum hafi fundist ó­við­eig­andi að karlar eins og hann fengju mikla at­hygli á degi sem ætti að snúast um mis­munun og of­beldi gegn konun. Hann væri al­gjör­lega sam­mála því.

Væri rangur út­gangs­punktur að fá hrós

Haraldur tekur fram að sinn reynslu­heimur og reynslu­heimur karla sé allt annar en kvenna. Þegar honum hafi verið sagt af konum í dag sem hann ber ó­mælda virðingu fyrir, að hann væri ekki að hjálpa heldur þvert á móti, hafi hann séð það sem hann átti að sjálf­sögðu að sjá fyrr.

„Mér þykir mjög leitt að þessi við­burður á morgun á Önnu Jónu hafi dregið at­hygli frá því sem skiptir raun­veru­lega máli á þessum degi. Við verðum með opið á morgun og munum gera okkar besta við að þjóna þeim konum og kvárum sem koma til okkar en gesta­þjónarnir verða hins­vegar ekki með okkur.“

Haraldur segir að það sé ekki hlut­verk kvenna að kenna körlum eins og sér hvernig eigi að haga sér. Hann segist samt sem áður ó­trú­lega þakk­látur þeim sem hafi í dag talað hrein­skilið um þetta mál.

„Ég býst við því að ein­hver munu hrósa mér fyrir að sjá að mér. Það væri al­gjör­lega rangur út­gangs­punktur og myndi aftur setja at­hyglina á rangan stað. Þau sem eiga allt hrós skilið eru þær konur og kvár sem hafa vakið mig, og okkur öll, til enn frekari vitundar um þessi risa­stóru og mikil­vægu mál.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×