Innlent

Himin­há sekt og fangelsis­dómur fyrir skatt­svik

Árni Sæberg skrifar
Landsréttur staðfesti dóm Ragnars Más að mestu leyti.
Landsréttur staðfesti dóm Ragnars Más að mestu leyti. Vísir/Vilhelm

Ragnar Már Svansson Michelsen hefur veruð dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar, sem er skilorðsbundin að langmestu leyti, og greiðslu tæplega 134 milljóna króna sektar fyrir stórfellt skattalagabrot.

Ragnar Már var ákærður og sakfelldur fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum vegna tveggja félaga, sem hann var í forsvari fyrir, brot á lögum um bókhald og peningaþvætti.

Með því tókst honum að komast hjá greiðslu virðisaukaskatts upp á tæpar 45 milljónir króna.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem staðfestur var af Landsrétti að mestu leyti á föstudag, segir að Ragnar Már hafi framið brot sín á árunum 2012 til 2014 og að málið hafi dregist mikið, honum að ósekju.

Hann á að baki nokkuð langan brotaferil og hefur frá árinu 2004 hlotið dóma fyrir gripdeild, fjársvik, skjalafals og frelsissviptingu. Þá var hann dæmdur til fangelsisvistar og sektargreiðslu fyrir skattalagabrot árið 2014. Refsingin sem honum var dæmd á föstudag er hegningarauki vegna dómsins frá árinu 2014 að því marki sem hann framdi brot sín fyrir uppsögu dómsins en rof á skilorði dómsins hvað varðar brot framin eftir þann tíma.

Með dómi Landsréttar var fangelsisrefsing Ragnars Más staðfest en sektargreiðsla var lækkuð úr 136,7 milljónum króna í 133,6 milljónir króna. Þá var hann dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir báðum dómstigum, alls 4,7 milljónir króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×