Innlent

Segja löðrunginn eiga sér enga hliðstæðu hér á landi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndskeiðið af löðrungnum vakti mikla reiði eftir að það komst í umferð á samfélagsmiðlum.
Myndskeiðið af löðrungnum vakti mikla reiði eftir að það komst í umferð á samfélagsmiðlum.

Íslenskir leiðsögumenn fordæma atvik á Hótel Örk nýlega þar sem kona, sem sögð er fararstjóri, löðrungaði skólastelpu frá Bretlandi. Þetta ömurlega háttalag er sagt ekki eiga sér hliðstæðu meðal leiðsögumanna hérlendis.

Málið hefur verið til umfjöllunar í breskum miðlum sem íslenskum. Lögreglan á Suðurlandi er með málið á sínu borði. Fulltrúar lögreglu vildu ekki upplýsa á mánudag hvort rætt hefði verið við konuna sem löðrungaði stúlkuna.

Stjórn Leiðsagnar, félags leiðsögumanna, ályktaði vegna málsins:

„Stjórn Leiðsagnar - Félags leiðsögumanna fordæmir atvik það sem átti sér stað nýverið stað á Hótel Örk þar sem leiðsögukona sló ungmenni sem var hér á ferð á Íslandi ásamt hópi skólafélaga frá Bretlandi. Atvikið var tekið upp á myndband og sent á breska og innlenda fjölmiðla.“

Í siðareglum leiðsögumanna segir að leiðsögumaður taki ekki undir nokkrum kringumstæðum þátt í áreitni, einelti eða ofbeldi af neinu tagi, hvorki í orðum eða gjörðum, og sé á varðbergi gagnvart slíkri háttsemi hjá öðrum.

„Augljóst er að atvik þetta stríðir alfarið gegn siðareglum félagsins og er að mati stjórnar lögreglumál fyrst og fremst.“

Jóna Fanney Friðriksdóttir er formaður Leiðsagnar.

Það sé von stjórnar Leiðsagnar að hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu, hérlendis sem og erlendis átti sig á að hér sé um vítavert háttalag að ræða sem á engan hátt endurspegli þá faglegu og vingjarnlegu þjónustu sem leiðsögumenn hérlendis eru þekktir fyrir.

„Stjórn sendir öllum í Harris Girls Academy Bromley í New Beckenham hlýjar kveðjur og vonast til að stúlkan sem fyrir árásinni varð jafni sig fljótlega,“ segir Jóna Fanney Friðriksdóttir, formaður Leiðsagnar.


Tengdar fréttir

Kærð fyrir að löðrunga skólastelpu á Hótel Örk

Lögreglan á Suðurlandi hefur til rannsóknar uppákomu á Hótel Örk liðna helgi þar sem fullorðin hvít kona löðrungaði unga stúlku, dökka á hörund, á gangi hótelsins. Myndskeið af löðrungnum er í mikilli dreifingu á samfélagsmiðlum og hefur vakið hörð viðbrögð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×