Lífið

Jada segir Chris Rock hafa boðið sér á stefnumót

Jón Þór Stefánsson skrifar
Löðrungur Will Smith setti allt á hliðina. Uppljóstrun Jödu um stefnumótabón Chris Rock setur höggið í athyglisvert samhengi.
Löðrungur Will Smith setti allt á hliðina. Uppljóstrun Jödu um stefnumótabón Chris Rock setur höggið í athyglisvert samhengi. EPA

Leikkonan Jada Pinkett Smith heldur því fram að grínistinn Chris Rock hafi boðið sér á stefnumót. Það hafi gerst þegar hún var gift Will Smith, en fyrr í vikunni greindi hún frá því að þau væru búin að vera skilin á borði og sæng í sjö ár.

Þessar uppljóstranir Jödu koma í viðtölum við hana vegna útgáfu sjálfsævisögu hennar, Worthy.

Sagan um þessa bón Chris Rock þykir sérstaklega athyglisverð í ljósi atviks sem átti sér stað á Óskarsverðlaunahátíðinni í fyrra. Þá sló Will Smith Chris Rock utanundir vegna brandara þess síðarnefnda um Jödu.

„Láttu nafn konunnar minnar ekki koma út úr fokking munninum á þér,“ sagði Will Smith í kjölfarið, en atvikið átti sér stað í beinni útsendingu og heimsbyggðin horfði á.

Jada útskýrir stefnumótabón Rock í viðtali við People. Hún segir að á hverju sumri hafi orðrómur farið að ganga þess efnis að hún og Smith væru skilin.

„Þetta var sérstaklega áberandi eitt sumarið og það sumar hélt Chris að við værum að skilja. Hann hringdi því í mig og sagði að myndi vilja fara með mér á stefnumót. Ég spurði hvað hann meinti með því og hann spurði hvort við Will værum ekki að skilja. Ég svaraði honum því að einungis væri um orðróm að ræða. Hann skammaðist sín og baðst afsökunar,“

Fox News fjallar einnig um málið og segist hafa leitast eftir því að fá viðbrögð Chris Rock við þessari frásögn, en að hann hafi ekki tjáð sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×