Innlent

For­maður hús­fé­lagsins fær nagla­dekkja­banninu hnekkt

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Myndin er úr safni. Bílastæðakjallara Hörpu nánar tiltekið.
Myndin er úr safni. Bílastæðakjallara Hörpu nánar tiltekið. Vísir/Vilhelm

Á­kvörðun hús­fé­lags í fjöl­býlis­húsi um að banna notkun nagla­dekkja í bíla­geymslu sinni er ó­lög­mæt, að mati kæru­nefndar húsa­mála. Nefndin telur ekki unnt að banna slíkt nema sam­þykki allra eig­enda komi til.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í á­liti nefndarinnar sem birt hefur verið á vef Stjórnar­ráðsins. Þar kemur fram að í bíla­geymslunni séu 42 bíla­stæði og að það hafi verið for­maður hús­fé­lagsins sem hafi beðið um álit nefndarinnar á því hvort bannið væri lög­mætt.

Á aðal­fundi hús­fé­lagsins sem haldinn var þann 16. mars síðast­liðinn var borin upp til at­kvæða­greiðslu til­laga um „al­gjört bann við notkun nagla­dekkja í bíla­geymslu hússins.“ Á fundinn mættu eig­endur 34 í­búða af 42. 32 sam­þykktu til­löguna.

Epoxy efni á öllu gólfinu

For­saga málsins er sú að í júní í fyrra var epoxy efni lagt á allt gólfið í bíla­geymslu hússins. Á­stæða þessarar fram­kvæmdar var sú að gólfið var allt krossprungið og ótal við­gerðir verið gerðar með floti, steypu og fylltun.

Fram kemur að um þessa fram­kvæmd hafi verið al­gjör sátt og sam­staða. Mánaðar­mótin októ­ber/nóvember hafi svo þrír eig­endur verið búnir að setja nagla­dekk undir bíla sína. For­maður hús­fé­lags hafi þá náð sam­komu­lagi við eig­endur bílanna um að skipta út nagla­dekkjunum.

Vildi breyta hug­lægum reglum í form­legar

Segir for­maðurinn að þrátt fyrir að full­komin sátt hafi virst meðal eig­enda um að aka ekki á nagla­dekkjum inn í bíla­geymsluna hafi verið lögð fram til­laga um al­gjört bann gegn notkun nagla­dekkja og að bannið yrði sett í hús­reglur. Einnig að sett yrðu tvö varan­leg skilti við inn­keyrslu­dyr með á­letrun um bannið.

Óskar sá sem lagði til að bann yrði sett á þess við nefndina að málinu verði vísað frá. Enginn á­greiningur sé um nagla­dekk. Stað­reyndin sé sú að hann hafi lagt fram til­lögu um að breyta hug­lægum reglum í form­lega stað­festar reglur, sem yrðu öllum ljósar og skýrar.

Á­kvörðun fundarins hefði stað­fest skoðun hans. Stjórn hús­fé­lagsins hafi hins vegar greitt kostnað þriggja eig­enda við að skipta út nagla­dekkjum fyrir heils­árs­dekk. Þessir eig­endur hafi ekki getað vitað af þessum hug­lægu reglum í haust.

Slíkri kvöð verði þing­lýst

Í á­liti kæru­nefndarinnar kemur fram að sam­kvæmt lögum um fjöl­eignar­hús þurfi við á­kvarðana­töku um sam­eigin­leg mál­efni í fjöl­eignar­húsum sam­þykki allra eig­enda vegna veru­legra breytinga á hag­nýtingu og af­notum sam­eignar.

Sam­kvæmt því þurfi sam­þykki allra eig­enda um meiri og víð­tækari tak­markanir á ráð­stföunar-og hag­nýtingar­rétti eig­enda yfir sér­eign en leiðir af á­kvæðum laganna eða eðli máls. Því telji kæru­nefnd ekki unnt að banna notkun nagla­dekka í bíla­geymslu nema sam­þykki allra eig­enda komi til og að slíkri kvöð verði þing­lýst sem sér­stakri hús­fé­lags­sam­þykkt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×