Fótbolti

Inter Miami komust ekki í úrslitakeppnina og Messi sagður á leið til Barcelona

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lionel Messi spilaði í gær með Inter Miami gegn FC Cincinnati.
Lionel Messi spilaði í gær með Inter Miami gegn FC Cincinnati. Vísir/Getty

Inter Miami á ekki lengur möguleika að komast í úrslitakeppni bandarísku MLS deildarinnar eftir 0-1 tap á heimavelli gegn Cincinnatti. 

Inter Miami hefur verið í miklum vandræðum inni á vellinum á þessu tímabili og sat nálægt botninum þegar stórstjörnur á borð við Lionel Messi, Jordi Alba og Sergio Busquets gengu til liðs við félagið í sumar. 

Eftir komu þeirra tókst liðinu að klífa upp stöðutöfluna og voru á góðri leið með að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Þangað til Lionel Messi meiddist í síðasta mánuði og missti af nokkrum leikjum. 

Frá því að Messi kom til liðsins hafa þeir aðeins tapað einum af þeim þrettán leikjum sem hann hefur spilað. Án hans hafa þeir tapað fimm af sex leikjum. 

Nú þegar ljóst er að Inter Miami er dottið út hafa orðrómar verið á sveifi að Lionel Messi muni snúa aftur til Barcelona í janúar glugganum og spila út tímabilið með sínu gamla félagi. 

Þjálfari liðsins, Tata Martino, gaf þó lítið fyrir þær fullyrðingar á blaðamannafundi eftir leik og sagðist ekkert kannast við málið. 

Nú tekur við landsleikjahlé en Inter Miami mun svo spila tvo leiki til viðbótar á þessu tímabili, heima og að heiman gegn Charlotte þann 18. og 21. október. En eins og áður segir á liðið ekki lengur möguleika á því að komast í úrslitakeppnina. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×