Það var mánudagsmorguninn 25. september sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu. Kona um fertugt hefði verið úrskurðuð í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna eftir að hafa verið handtekin í íbúð í austurborginni á laugardagskvöld.
Tilkynning hafði borist lögreglu sama kvöld og þegar lögregluþjónar mættu á staðinn hófu þeir þegar endurlífgunartilraunir. Hann var í framhaldinu fluttur á Landspítalann en úrskurðaður látinn við komuna.
Fíknivandi og sakarferill
Karlmaðurinn og konan eru bæði Íslendingar sem hafa átt við vímuefnavanda að glíma um langt skeið samkvæmt heimildum fréttastofu.
Karlmaðurinn er 58 ára tveggja barna faðir sem hefur tjáð sig opinberlega um áfengisvanda sinn og lífið á götunni. Hann hlaut árið 2021 dóm fyrir þjófnað, áfengislagabrot, ölvunarakstur og vörslu fíkniefna.
Konan er 41 árs og á einnig langan brotaferil að baki fyrir meðal annars fíkniefnabrot og þjófnað. Þá hefur hún sýnt lögreglu töluverðan mótþróa undanfarin ár eins og má sjá í færslum hennar á samfélagsmiðlum. Konan átti smáhund sem fannst dauður á vettvangi í Bátavogi á laugardagskvöldið.
Ævar Pálmi Pálmason, hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu, tjáði RÚV í gær að verið væri að skoða hvort og með hvaða hætti dauði hundurinn tengist málinu.
Þá hefur RÚV heimildir fyrir því að áverkar hafi fundist á hálsi hins látna og kynfærum hans.
Áfram í haldi lögreglu
Konan var upphaflega úrskurðuð í þriggja daga gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þá hafði líkið ekki verið krufið og talið óljóst hvað hefði gerst.
Í framhaldinu var hún úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald sem átti að renna út í dag. Lögregla tilkynnti í dag að hún hefði verið úrskurðuð í gæsluvarðhald í tvær vikur í viðbót á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Fréttin hefur verið uppfærð.