Lífið

„Slétt sama hvað fólki finnst um mig“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, jafnan þekktur sem Villi Vill, er viðmælandi í nýjasta þætti af Einkalífinu.
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, jafnan þekktur sem Villi Vill, er viðmælandi í nýjasta þætti af Einkalífinu. Vísir/Vilhelm

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson er með þekktari lögmönnum landsins og hefur meira að segja fengið viðurnefnið stjörnulögmaðurinn. Hann er viðmælandi í nýjasta þætti af Einkalífinu en þáttinn má sjá í heild sinni hér í pistlinum.

Villi, eins og hann er gjarnan kallaður, segir lögmannsstarfið órjúfanlegur hluti af sjálfum sér en finnst þó fólk þurfa að vera meðvitað um að aðskilja skjólstæðinginn og lögmanninn. Það hafi oft vafist fyrir fólki og segir Villi lögmenn auðvitað eiga rétt á því að vera ekki samsamaðir skjólstæðingum sínum, rétt eins og aðrar starfsstéttir. 

Villi ræddi meðal annars um þetta í Einkalífinu ásamt tengingu sinni við Ítalíu, fjölskyldulífið, æskuna, að sigrast á hræðslu, ýmis ævintýri og margt fleira. 

Þáttinn í heild sinni má horfa á í spilaranum hér að neðan:

Klippa: Einkalífið - Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson

Allir eigi rétt á sinni skoðun á öðrum

Villi missir ekki svefn yfir áliti annarra en hann hefur verið áberandi í íslensku samfélagi í dágóða tíð.

„Lengst af hefur mér verið alveg slétt sama um það hvað fólki finnst um mig. Þeir sem þekkja mig þeir þekkja mig, þeir sem þekkja mig ekki geta kynnst mér ef þeir hafa áhuga á því. 

En ef að það gerist ekki og fólk ákveður að hafa einhverja skoðun á mér byggt á einhverju sem það hefur séð eða lesið eða heyrt eða annað þá verður það bara svo að vera. Það verða allir að fá að hafa hlutina eins og þeir vilja og það á líka við um skoðanir fólks á öðrum.“

Unnið hvern einasta dag síðastliðinn áratug

Aðspurður hvort að honum finnist ósanngjarnt að ekki sé gerður greinarmunur á lögmannsstarfinu og einkalífinu svarar Villi:

„Ég starfa sem lögmaður, er þekktur sem slíkur og ég vinn einn. Skilin árið 2023 á milli vinnu og einkalífs eru alltaf að verða óskýrari og ég held að það hafi ekki liðið dagur síðastliðinn tíu ár þar sem ég hef ekki unnið eitthvað. 

Þannig að mörkin þarna á milli, þegar að staðan er sú sem ég er í, þau eru auðvitað töluvert óljós. Og ég geri engar athugasemdir við það að fólk greini ekki á milli mín sem persónu og mín sem lögmanns. Hinsvegar er það annað mál þegar fólk greinir ekki á milli mín og umbjóðenda minna. Það er kannski það sem vefst fyrir mörgum.“

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson segist ekki gera athugasemd við það að fólk tengi hann alltaf við lögmannsstarfið. Hann krefst þess þó að fólk geri greinarmun á honum og umbjóðendum sínum.Vísir/Vilhelm

Krafa um að skilið sé á milli sín og umbjóðenda sinna

Nefnir Villi þá dæmi um Hlíðamálið svokallaða á sínum tíma, þar sem fólk fjölmennti á lögreglustöðina og gerði kröfu um að tveir tilteknir menn yrðu hnepptir í gæsluvarðhald. Mótmælin voru byggð á frétt sem hafði birst í fjölmiðlum um að íbúð sem annar mannanna hafði verið með á leigu hafi verið sérútbúinn til nauðgana. 

„Sem að síðan reyndist enginn fótur vera fyrir og rannsókn þessa máls var hætt mjög hratt og örugglega. Þá meðal annars gerðist það að ég var með vini mínum á veitingahúsi. Hann var þá að þjálfa knattspyrnulið eða var aðstoðarþjálfari, ég man það ekki nákvæmlega. En um leið og við komum inn á veitingahúsið þá fær hann smáskilaboð frá eiginkonu eins leikmannsins sem að segir: „Hvað ert þú að gera með þessum nauðgara?“

Þetta kannski kristallar aðeins vanþekkingu fólks á hlutverki og stöðu lögmanna. Lögmenn eiga auðvitað rétt á því eins og aðrir að vera ekki samsamaðir skjólstæðingum sínum,“ 

segir Villi og nefnir þá dæmi um ýmsar aðrar starfsstéttir sem það sama gildir um. 

„Ég geri kröfu um það að það sé skilið á milli mín og umbjóðenda minna en á milli mín sem persónu og mín sem lögmanns, það læt ég algjörlega liggja á milli hluta.“

Dómstóll götunnar

Dómstóll götunnar hefur verið áberandi á undanförnum árum og þá sérstaklega í kynferðisbrotamálum, þar sem fólk hefur tjáð sig um ófullkomleika réttarkerfisins. Villi segir dómstól götunnar hluta af tjáningarfrelsinu en það geti verið vant með farið hvernig það er notað. 

„Réttarkerfið er auðvitað mannanna verk og eins og öll önnur mannanna verk þá er það ekki fullkomið. Það er hinsvegar sú leið sem við höfum sammælst um að sé rétt til þess að halda uppi lögum og reglum. 

Það er hluti af réttarríkinu og réttarríkið er órjúfanlegur hluti af lýðræðinu þannig að það fer lang best af því að við látum þá aðila sem að til þess eru bærir halda uppi lögum og reglum og dómum. Dómstóll götunnar er auðvitað hluti af tjáningarfrelsinu sem er auðvitað stjórnarskrárvarið.“

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, Villi Vill, starfar einn og rekur lögmannsstofu.Vísir/Vilhelm

„Það finnst mér alvarlegt“

Hann segir sumt hafa valdið sér áhyggjum í þróun á umræðunni á undanförnum árum en í dag hafi hann þó meiri áhyggjur af því hvert afmörkuð skoðun getur ratað. 

„Það eiga auðvitað allir rétt á því að tjá sig og hafa skoðun á hlutum. 

Tjáningarfrelsisákvæðið í Stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu var auðvitað ekki sett til að vernda vinsælar og almennar skoðanir heldur þvert á móti til þess að vernda óvinsælar skoðanir sem eru eftir atvikum til þess fallnar að vekja umræðu og andúð og hneyksla og særa jafnvel.

Nú er auðvitað staðan sú að hver og einn einasti einstaklingur í heiminum er nánast orðinn sinn eigin fjölmiðill og það verður bara að vera þannig.

Það sem ég hef meiri áhyggjur af er það sem gerist þegar hinir almennu fjölmiðlar sem að lúta ritstjórn og eiga að ástunda vönduð vinnubrögð sem fara eftir siðareglum blaðamanna, þegar þeir taka það sem einhver Jón út í bæ skrifar á Facebook og birta það gagnrýnislaust sem fréttir í þessum almennu fjölmiðlum.“

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson í Mannréttindadómstól Evrópu.Aðsend

Nefnir Villi nýlegt dæmi í tengslum við þetta. 

„Það er nærtækt dæmi núna til dæmis úr Morgunblaðinu þar sem maður var að brúka tjáningarfrelsi sitt og halda uppi að mínu mati fráleitum skoðunum sem hann á þó rétt á. Og bara gott og vel ef það hefði bara stoppað þar og þetta hefði bara verið á Facebook hjá viðkomandi aðila. 

En þá tekur víðlesinn fjölmiðill þetta efni upp, birtir það og veitir þar af leiðandi þessum manni platform fyrir þessa orðræðu sína, sem í mínum huga getur ekki fallið undir neitt annað heldur en hatursorðræða. Þetta finnst mér alvarlegt.“

Einnig er hægt að hlusta á Einkalífið á helstu hlaðvarpsveitum






Fleiri fréttir

Sjá meira


×