Innlent

Snöruðu Héðni upp á gamla stallinn við Hring­braut

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Héðinn Valdimarsson er mættur aftur á Hringbraut, fimm árum eftir brotthvarf.
Héðinn Valdimarsson er mættur aftur á Hringbraut, fimm árum eftir brotthvarf. Vísir/Berghildur

Búið er að koma Héðni Valdimarssyni aftur fyrir við Hringbraut þar sem hann hafði staðið keikur í áratugi. Styttan var tekin niður fyrir fimm árum síðan, svo athygli vakti.

Líkt og Vísir greindi frá á sínum tíma var styttan tekin niður einkum til þess að endurgera stöpul hennar, sem var svo gott sem ónýtur. Á meðan var Héðinn geymdur á Árbæjarsafninu.

Styttan er merkileg eins og fyrirmyndin, Héðinn Valdimarsson, sem var alþingismaður og formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Héðinn var helsti forystumaður byggingarsamtaka verkamanna sem gengust fyrir byggingu verkamannabústaðanna við Hringbraut – þá merkilegu framkvæmd.

Því var lýst yfir á sínum tíma að jafnframt yrði flikkað upp á styttuna, hún hreinsuð og gerð fín. Upphaflega átti Héðinn að mæta aftur á sinn gamla stað ári síðar en svo varð ekki.

Styttan er í eigu Húsfélags alþýðu en Listasafn Reykjavíkur var ráðgefandi vegna aðgerðanna. Kristín Róbertsdóttir, formaður Húsfélags alþýðu, sagði við Vísi árið 2018 að styttan væri sú eina í eigu félagsins.

Hún sagðist telja að listamaðurinn Sigurjón Ólafsson, sem gerði styttuna, hafi haft sem fyrirmynd ljósmynd af Héðni þegar hann hélt ræðu á 1. maí á svölum eins bústaðanna. „Þá voru 1. maí fundir haldnir í portinu hjá verkamannabústöðunum,“ sagði Kristín.

Búið er að gera við styttuna af Héðni. Vísir/Berghildur


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×