Innlent

Esjan laus við snjó í fyrsta skipti í fjögur ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Snjólaust Gunnlaugsskarð í Esjunni.
Snjólaust Gunnlaugsskarð í Esjunni. Veðurstofa Íslands/Árni Sigurðsson

Snjóskafli í Gunnlaugsskarði í Esjunni er horfinn í fyrsta skipti frá árinu 2019. Sumur eru sögð þurfa að vera óvenju hlý til þess að skaflinn bráðni alveg.

Til þess að skaflinn hverfi þarf helst að fara saman að vetur sé snjóléttur á undan hlýju sumri. Í vetur safnaðist lítill snjór í löngum frostaköflum. Þá hefur verið óvenju þurrt og sólríkt í sumar eftir vætusaman júní, að því er segir í grein á vef Veðurstofu Íslands.

Þetta er aðeins í annað skiptið á ellefu árum sem skaflinn í Gunnlaugsskarði hverfur. Fyrir 2019 gerðist það árið 2012. Skaflinn er við efstu brún Kistufellsmegin í Gunnlaugsskarði og sést venjulega vel frá borginni.

Fyrst sást skaflinn hverfa árið 1929 en þá mundu elstu menn ekki eftir því að það hefði gerst áður. Hann hvarf svo flest ár fram til 1947 en svo stopular til 1964. Á hafísárunum 1965 til 1971 sat skaflinn sumrin af sér. Hann tók ekki að hverfa reglulega aftur fyrr en eftir 1998, tíu ár í röð frá 2001 til 2010.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×