Fótbolti

Ingibjörg nýr fyrirliði Vålerenga: „Fyrst og síðast er ég mjög stolt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir hefur leikið 53 A-landsleiki fyrir Ísland.
Ingibjörg Sigurðardóttir hefur leikið 53 A-landsleiki fyrir Ísland. getty/v

Ingibjörg Sigurðardóttir, landsliðskona í fótbolta, hefur verið skipuð nýr fyrirliði norska úrvalsdeildarliðsins Vålerenga.

Ingibjörg tekur við fyrirliðabandinu hjá Vålerenga af Stine Ballisager sem var seld til Kansas City í Bandaríkjunum.

„Fyrst og síðast er ég mjög stolt að vera fyrirliði. Það er góð áskorun fyrir mig að taka á mig enn meiri ábyrgð. En hafandi sagt það held ég að þetta breyti ekki hlutverki mínu í liðinu mjög mikið. Ég verð alltaf ég sjálf,“ er haft eftir Ingibjörgu á heimasíðu Vålerenga.

„Mér finnst ég alltaf hafa verið leiðtogi hjá öllum liðum sem ég hef verið hjá. Þegar ég kom til Vålerenga 2020 var Sherida Spitse mjög sterkur fyrirliði hérna. Ég hef verið einn af fyrirliðunum í nokkur ár og lært mikið um leiðtogahæfni, fyrst frá Sheridu og svo Stine Ballisager og ég nýti mér það.“

Ingibjörg varð tvöfaldur meistari með Vålerenga 2020 og var valin leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar það tímabil. Grindvíkingurinn varð aftur norskur meistari með Vålerenga 2021. Á síðasta tímabili endaði Vålerenga í 2. sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

Vålerenga er með sjö stiga forskot á toppi norsku úrvalsdeildarinnar sem stendur. Rosenborg, sem er í 2. sæti, á tvo leiki til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×