Innlent

Hefur safnað rúmri hálfri milljón fyrir fé­lag sem greip fjöl­skylduna

Árni Sæberg og Margrét Björk Jónsdóttir skrifa
Katrín Sunna sækir hlaupagögnin ásamt móður sinni, Svan­hvíti Yrsu Árna­dótt­ur.
Katrín Sunna sækir hlaupagögnin ásamt móður sinni, Svan­hvíti Yrsu Árna­dótt­ur. Stöð 2/Sigurjón

Katrín Sunna Erlingsdóttir, níu ára stúlka sem greindist ung með krabbamein, ætlar að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu ásamt fjölskyldu sinni til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna. Hún hefur þegar safnað rúmri hálfri milljón króna.

Katrín Sunna og fjölskylda munu taka þátt í skemmtiskokkinu svokallaða á laugardaginn kemur. Hún segist taka þátt af því að hún var með krabbamein, en ekki lengur.

Hún fylgdist með foreldrum sínum hlaupa fyrir sama málefni í fyrra af hliðarlínunni, enda þá í miðri krabbameinsmeðferð.

Mikill fjöldi fólks hefur þegar heitið á hana og rúm hálf milljón króna hefur safnast fyrir SKB. Hún segist hafa búist við því að svo margir myndu heita á hana.

Annað kom ekki til greina en að taka þátt í ár

Erling Daði Emilsson, faðir Katrínar Sunnu segir að hún hafi séð stemninguna í skemmtiskokkinu í fyrra og ekkert annað hafi komið til greina en að taka þátt í ár.

Fjölskyldan er spennt fyrir skemmtiskokkinu.Stöð 2/Sigurjón

Hann segir SKB hafa gripið fjölskylduna allt frá greiningardegi og verið með henni í gegnum allt ferlið.

„Það eru mömmuhópar og pabbahópar og listatímar fyrir börnin og systkini, svo fátt eitt sé nefnt. Þannig að það er gríðarlegur stuðningur.“

Þeir sem vilja heita á Katrínu Sunnu til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna geta gert það hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×