Innlent

Stutt á milli feigs og ó­feigs í um­ferðinni á Sel­tjarnar­nesi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Konráð segir þá sem urðu vitni að atvikinu á gatnamótunum hafa verið brugðið.
Konráð segir þá sem urðu vitni að atvikinu á gatnamótunum hafa verið brugðið. Vísir/Arnar

Litlu mátti muna að ekið hefði verið á fimm ára gamlan strák þar sem hann hjólaði yfir götuna við einu ljósa­gatna­mót Sel­tjarnar­ness á föstu­dag þar sem Suður­strönd og Nes­vegur mætast. Íbúi sem varð vitni að at­vikinu segir of al­gengt að öku­menn keyri hraðar en tak­markanir leyfi á svæðinu.

„Mér var veru­lega brugðið, þetta er vinur sonar míns og ég var að sækja hann, svo hann var á mína á­byrgð,“ segir Kon­ráð Jóns­son, íbúi á Sel­tjarnar­nesi, sem sótti son sinn og vin hans á leik­skólann Sól­brekku að loknum vinnu­degi á föstu­daginn.

Ökumaðurinn var kominn á rautt ljós og dreif sig því í beygjuna á meðan strákurinn hjólaði yfir.

„Þetta gerðist allt svo hratt en mér sýnist öku­maðurinn hafa verið úti á miðjum gatna­mótum að bíða eftir því að um­ferð úr gagn­stæðri átt færi yfir svo hann gæti beygt. Svo kemur rautt ljós og hann tekur beyguna, á sama tíma og það er komið grænt á gangandi veg­far­endur,“ segir Kon­ráð.

Kippti drengnum frá

„Þessi fimm ára drengur er á hjólinu sínu og horfir bara á það hvort það sé komið grænt göngu­ljós og fer bara af stað og eigin­lega lendir næstum því undir horninu á þessum bíl, sem var Tesla. Í sömu and­rá er maður þarna líka að labba með sín börn og er nær drengnum en ég. Hann kippir drengnum frá og Teslan stoppar líka. Ég hef velt því fyrir mér hvort það gæti hafa verið sjálf­virkur stöðvunar­búnaður. Svo gæti líka verið að öku­maðurinn hafi bara nauð­hemlað.“

Konráð segir of marga keyra hratt á Suðurströnd.Vísir/Arnar

Kon­ráð segir öku­manni bílsins hafa verið afar brugðið eins og öllum veg­far­endum sem urðu vitni að at­vikinu. Stráknum hafi hins vegar blessunar­lega ekki orðið meint af. Kon­ráð tekur fram að hann telji breytingar á göngu­ljósinu, þannig að það sé grænt þegar bílar séu á rauði, til bóta.

„En það mætti láta líða að­eins lengri tíma á milli þess sem það kemur rautt á bíla­um­ferð og þangað til það kemur grænt á gangandi um­ferð. Þá hefði þetta örugg­lega ekkert gerst.“

Öku­menn keyri of hratt

Kon­ráð gerir at­vikinu skil á í­búa­hópi Sel­tirninga. Hann segir alveg ljóst að sam­kvæmt um­ferðar­reglum hafi öku­manni verið skylt að fara var­lega og gefa gangandi veg­far­endum gaum í beygjunni.

„Mér finnst eins og margir öku­menn átti sig ekki á því hvað það er stutt á milli feigs og ó­feigs hér í um­ferðinni á Nesinu, með öll þessi börn sem þurfa að labba við og komast yfir göturnar. Um­ferðar­reglurnar segja að öku­maður hafi sér­staka skyldu til að aka nægi­lega hægt miðað við að­stæður þegar öku­tæki nálgast gangandi veg­faranda á eða við veg og skal sér­staka að­gæslu hafa ef barn er á ferð. Það er því ekki bara nóg að aka eins og hraða­tak­mörkunar­skiltið segir, þó að það væri jú á­gætis byrjun fyrir marga öku­menn að horfa á það.“

Kon­ráð segir of marga öku­menn virða að vettugi 30 kíló­metra há­marks­hraðann á götunni. Hann eigi sjálfur fjögur börn, þar af þrjú undir sex ára sem þurfi að labba í kringum Suður­ströndina og kveðst hann á­hyggju­fullur vegna öku­hraðans.

„Einu sinni var ég að labba með börnunum mínum við göngu­ljósin sem eru nær sund­lauginni og þar fór leigu­bíl­stjóri yfir á eldrauðu ljósi. Hann var bara að horfa eitt­hvað niður og við vorum bara heppin að vera ekki lögð af stað yfir.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×